Önnur plata Eyjasveitarinnar Foreign Monkeys kom út í dag 10 árum upp á dag frá útgáfu fyrri plötu þeirra. Platan sem ber hið mjög svo viðeigandi nafn, Return, kom út á helstu tónlistarveitum í nótt, þ.á.m. Spotify. Platan hefur einnig verið pressuð á vinyl og má nálgast eintök af henni með að fara inn á heimasíðu sveitarinnar www.foreignmonkeys.com

Hlustunarpartý og útgáfutónleikar

Í tilefni af útgáfunni bjóða þeir félagarnir Eyjamönnum í tveggja daga partý.

Á fimmtudagskvöldið 4. apríl kl. 21.00 munu Foreign Monkeys og The Brothers Brewery bjóða Eyjamönnum til hlustunarpartýs á Brothers. Foreign Monkeys munu segja stuttlega frá útgáfunni, vinylplatan verður spiluð í heild sinni og bræðurnir kynna nýjustu bjór afurð sína Mr. Chimp, en bjórinn heitir einmitt eftir lagi með Foreign Monkeys.

Á föstudagskvöld kl 20:30 halda svo Foreign Monkeys útgáfutónleika sína í Alþýðuhúsinu. Hljómsveitin Merkúr eru sérstakir gestir á tónleiknum og mun þeir hefja leikinn stundvíslega kl. 20:30 en Foreign Monkeys stígur á svið strax á eftir þeim. Foreign Monkeys munu leika valið efni af fyrri plötu sinni ásamt því að leika nýju plötuna í heild sinni.

Frítt er inn á báða viðburðina og munu Foreign Monkeys selja vinylútgáfu Return á staðnum