Bæjarráði barst bréf frá Lista- og menningarhópi Vestmannaeyja dags. 28. mars sl., þar sem óskað er eftir því að fá til leigu hluta af húsnæði Vestmannaeyjabæjar að Strandvegi 30, efri hæð, undir vinnustofur.

Lista- og menningarfélag Vestmannaeyja er nýstofnað og er hlutverk þess að efla lista- og menningarlíf í Eyjum og starfa sem einskonar regnhlífarsamtök um hagsmuni félagsmanna. Félagið er opið öllu lista- og menningarfólki í Vestmannaeyjum sem hefur áhuga á að eiga aðild að því. Öllum félagsmönnum verður boðið að vera með á þeim sýningum og gjörningum sem félagið mun standa fyrir.

Félagið hyggst starfrækja vinnustofur í húsnæðinu fyrir myndlistarfólk, ljósmyndara og handverksfólk. Samkvæmt lauslegu mati þarf félagið um 400 fermetra rými undir vinnustofurnar. Kostirnir við umbeðið húsnæði er staðsetning þess, stærð og gerð rýmisins.

Bæjarráð samþykkti erindi Lista- og menningarfélags Vestmannaeyja. Framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og framkvæmdastjóra umhverfis- og tæknisviðs var falið að ljúka gerð samkomulags við félagið um umrætt húsnæði.