Trausti Hjaltason

Eitt af stóru málum síðustu bæjarstjórnar var samkomulag sem náðist við erlent stórfyrirtæki um að koma til Eyja og fjárfesta í nýju safni og byggja risa sundlaug fyrir hvali sem þarf að flytja frá Asíu. Mikil vinna Elliða Vignissonar bæjarstjóra og Páls Marvins formanns bæjarráðs við að koma á samkomulagi við Merlin Entertainment breskt fyrirtæki sem er það næst stærsta á eftir Disney á sínu sviði. Þeir félagar lögðu gríðarlega mikinn tíma og vinnu í að koma á samningum við fyrirtækið og sjá til þess að þetta yrði að veruleika. Bæjarstjórnin stóð 100% heil á bakvið þá og var mikil samstaða allan tíman um að halda traust og trúnað um þau mál sem kröfðust þess.

Einstakt á heimsvísu
Ég leyfi mér að fullyrða að þetta er einstakt verkefni á heimsvísu og eitthvað sem hefur ekki verið gert áður. Að stórfyrirtæki sjái sér fært að búa til griðarstað fyrir hvali á fallegri Eyju á Íslandi. Tækifærin í kringum verkefnið eru fjölmörg og hafa nú þegar skapað fjölmörg störf við að koma safninu og sundlauginni í gagnið.

Getur komið við hval, lunda og eldfjall á sama stað
Sjálfum þykir mér verkefnið vera eitt af mörgum sem skapa ferðaþjónustunni sóknarfæri á næstunni. Ekki skemmir svo fyrir að það verður heimsviðburður þegar hvalirnir koma eftir nokkrar vikur. Ég hvet Eyjamenn til að skoða safnið og nýta sér þau tækifæri sem eru að opnast með þessu. Vestmannaeyjar verða líklega einn af fáum stöðum í heiminum þar sem að þú getur komið við hval, lunda og eldfjall allt á sama staðnum.

Trausti Hjaltason
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.