Öldufar hefur hamlað opnun Landeyjahafnar

Fimm sinnum fleiri góðir dagar í fyrra en í ár

Góð skilyrði til dýpkunar í Landeyjahöfn, í klukkustundum talin, voru fimm sinnum fleiri í fyrra en í ár, miðað við tímabilið 1. mars til 7. apríl. Góð skilyrði voru í 336 klst. árið 2018 en hafa einungis verið í 61 klst. í ár. Það er fyrst og fremst ástæðan fyrir því að höfnin hefur ekki opnað, segir í frétt á Vegagerðinni.

Áfram er unnið að dýpkun svo sem kostur er og hefur Björgun verið úti við dýpkun í vor í verri skilyrðum en kveðið er á um í útboði en það hefur ekki dugað. Nú er staðan sú að dýpi í höfninni er mjög nálægt því að vera nægilegt fyrir Herjólf, dýpkun er í gangi í dag og var í nótt og því er mögulegt að höfnin opnist næstu daga. Það er þó ekki víst þótt dýpið verði nægilegt að það eitt og sér dugi til þess að Herjólfur sigli í Landeyjahöfn. Spáin næstu daga er ekki góð og verri þegar líður á vikuna og  ólíklegt að Herjólfur geti siglt í Landeyjahöfn vegna ölduhæðar. Spáð er á fjórða metra ölduhæð undir helgina. Höfnin var í reynd opin vegna dýpis þann 18. mars sl. en þá var ekki fært vegna öldunnar að sigla í Landeyjahöfn.

Samantekt á veðurfari við Landeyjahöfn árin 2017, 2018 og 2019 sýnir að aðstæður voru bestar árið 2018, sjá töflu:

Notast er við gögn úr öldudufli og vindmæli við höfnin. Hægt er að vinna við dýpkun þegar ölduhæð er 1,8 m og vindhraði undir 12 m/s en góð skilyrði eru þegar aldan er undir 1,3 m og vindhraði undir 10 m/s.

Á þessu sést að í ár hafa góð dýpkunarskilyrði aðeins verið í 61 klst. á þessu tímabili, og mögulegt að dýpka í 193 klst. til viðbótar. Í fyrra á sama tíma höfðu góð skilyrði varið í 336 klst. og hægt að dýpka í 209 klst. til viðbótar. Þarna er ólíku saman að jafna. Skilyrðin árið 2017 voru ekki eins hagstæð og 2018 en samt mun betri en í ár.

Nýr Herjólfur
Áfram er unnið að ljúka uppgjöri vegna nýs Herjólfs, daglegar viðræður eru í gangi en þeim er stýrt af danskri lögfræðistofu sem sérhæfir sig í málum er snúa að skipasmíðum.
Rétt er að ítreka enn vegna fjölmiðlaumræðu að þá er samningur Vegagerðarinnar við skipasmíðastöðina Crist S.A. í Póllandi alveg skýr um það að hönnun Herjólfs eftir frumhönnun er alfarið á ábyrgð skipasmíðastöðvarinnar líkt og er venja í skipasmíðum. Allar breytingar, þar með talin lenging skipsins, hefur verið samið um og það var Vegagerðin sem samþykkti að skipasmíðastöðin gæti lengt Herjólf til að geta staðið við kröfur um djúpristu. Hönnunin var þeirra. Þar sem eru til samningar um þessa breytingu sem og öll aukaverk þá kom það Vegagerðinni mjög á óvart að á síðustu stigum kæmi fram krafa sem nemur nærri þriðjungi smíðaverðsins, krafa sem á fyrri stigum hefur ekki verið sett fram.