Bæjarstjórn Vestmannaeyja staðfesti á síðasta fundi sínum vilja fjölskyldu- og tómstundaráðs að stofna starfshóp til að ræða framtíðarsýn í uppbyggingu, rekstri og skipulagi íþróttamála í Vestmannaeyjum.

Á fundi fjölskyldu- og tómstundaráðs síðast liðinn mánudag lagði ráðið til að í starfshópnum sitji tveir fulltrúar meirihluta, Hrefna Jónsdóttir og Styrmir Sigurðarson, fulltrúi minnihlutans, Ingólfur Jóhannesson, einn fulltrúi frá ÍBV Héraðssambandi, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs og framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs. Fulltrúi frá meirihluta stýrir hópnum.

Tilgangur starfshópsins er að koma með framtíðarsýn hvað varðar rekstur, uppbyggingu og skipulag í íþróttamálum í Vestmannaeyjum næstu 10 ára. „Lagt er til að íþróttafélög innan héraðssambands ÍBV verða kölluð inn hvert fyrir sig og beðin um að koma með þeirra framtíðarsýn hvað varðar rekstur, uppbyggingu og skipulag næstu árin, fyrir sitt félag,” segir í fundargerð ráðsins.

Fyrsta verkefni starfshópsins er að safna þessum upplýsingum, vinna úr þeim og eftir föngum kalla til þá aðila til sín sem þurfa þykir til að fá heildarsýn á verkefnið. Næsta verkefni starfshópsins er að setja saman þarfir/óskir félagana, sem þarf að meta, forgangsraða og kostnaðargreina. Lokaverkefni hópsins er svo að leggja fram tillögur fyrir fjölskyldu- og tómstundaráð um forgangsröðun verkefna, tímasetja þau og kostnaðarmeta. Fjölskyldu- og tómstundaráð mun í framhaldinu vinna áfram með niðurstöður hópsins og leggja fyrir bæjarstjórn tillögu um framtíðarsýn til næstu 10 ára í íþróttamálum. Mælst er til að starfshópurinn verði tilbúin með niðurstöður fyrir fjölskyldu- og tómstundaráð í október á þessu ári.