Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2018 verður tekin til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja í dag. Ársreikningurinn sýnir glögglega sterka stöðu bæjarsjóðs og að rekstur bæjarins hefur gengið vel.

Árið 2018 námu heildarrekstrartekjur samstæðu Vestmannaeyjabæjar 5.017 m.kr. og rekstrargjöld fyrir afskriftir og fjármagnsliði 4.448 m.kr. Rekstrarafkoma sveitarfélagsins var jákvæð um 497,9 m.kr samkvæmt samstæðureikningi sveitarfélagsins og hjá A-hlutanum var rekstrarafkoman 341,3 m.kr. Afkoman er töluvert betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2018, en þar var einungis gert ráð fyrir 87,0 m.kr. afgangi hjá samstæðu Vestmannaeyjabæjar.

Það eru einkum tvö atriði sem skýra þessa góðu rekstrarafkomu: Annars vegar urðu skatttekjur 234,6 m.kr. hærri en áætlað hafði verið í fjárhagsáætlun 2018 og hins vegar varð rekstrarafgangur Vestmannaeyjahafnar 126,6 m.kr. hærri en gert var ráð fyrir. Þessir þættir skýra 88% af þeim umfram afgangi sem nú er raunin. Rekstur annarra málaflokka gekk einnig vel og skýra um 50 m.kr hærri afkomu en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun.

Hjá aðalsjóði var veltufé frá rekstri 831 m.kr. og hjá samstæðu Vestmannabæjar var veltufé frá rekstri 1.072 m.kr.

Markvist hefur verið unnið að því síðustu ár að greiða niður skuldir bæjarsjóðs og er skuldastaða Vestmannaeyjabæjar við lánastofnanir mjög góð. Í lok árs 2018 voru vaxtaberandi skuldir samstæðunnar með næsta árs afborgunum 362 m.kr. og fyrir A-hlutann 126 m.kr. Hafnarsjóður mun ljúka við að greiða upp lán sín árið 2020 og Aðalsjóður mun verða skuldlaus árið 2024. Frá og með árinu 2025 munu einu langtímaskuldir sveitarfélagsins liggja í félagslega íbúðakerfinu og stærsti hluti þeirra skulda ber aðeins 1% vexti.

Skuldaviðmið skv. reglugerð þar um, mælist ekki lengur og skuldahlutfallið hjá samstæðunni er 103,4%. Hámarks skuldahlutfall skv. sveitarstjórnarlögum er 150%. Veltufé frá rekstri nemur 21,4% af heildartekjum samstæðunnar.

Heildareignir samstæðu Vestmannaeyjabæjar námu 13.268 m.kr. í árslok 2018. Þar af stóð handbært fé og skammtímafjárfesting í 3.172 m.kr. Allar fjárfestingar bæjarins á árinu eru fjármagnaðar með handbæru fé og námu fjárfestingar samstæðu Vestmannaeyjabæjar 607,9 m.kr. á árinu 2018.

Allar kennitölur í rekstri sýna góða fjárhagsstöðu Vestmannaeyjabæjar. Veltufjárhlutfall A-hlutans er 3,45 og eiginfjárhlutfallið er 55,3%. Veltufjárhlutfall samstæðunnar er 6,19 og eiginfjárhlutfall 60,9%.

Þrátt fyrir góðan tekjugrunn sveitarfélagsins, sem samanstendur m.a. af sterkri atvinnugrein í sjávarútvegi, vaxandi ferðaþjónustu og mikilli atvinnuþátttöku, þarf áfram að sýna aðgát og skynsemi við ráðstöfun skattfjár Vestmannaeyinga. Rekstararkostnaði verður áfram stillt í hóf og horft til rekstrarhagræðingar þar sem við á. Vandað verður til verka við fjárfestingar og framkvæmdir og m.a. horft til einkafjárfestingar og atvinnuhorfa við ákvarðanir um fjárfrekar framkvæmdir á vegum Vestmannaeyjabæjar. Eignir og eiginfjárstaða bæjarins er góð og þrátt fyrir að horfur séu á að það hægi á þeim heilmiklu umsvifum sem verið hafa í Eyjum undanfarin ár, er margt sem gefur fyrirheit um kraftmikið samfélag til framtíðar, líkt og áður.

Vestmannaeyjum 11. apríl 2019.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri