Hrafnhildur tekur sér frí frá þjálfun

Hrafnhildur Skúladóttir

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir stýrði kvennaliði ÍBV í handbolta í síðasta sinn í gærkvöld, þegar eyjakonur féllur úr leik fyrir Fram í undanúrslitum Íslandsmótsins. Hrafnhildur hefur stýrt ÍBV síðustu fjögur ár.

„Ég er búin að ákveða að fara í pásu frá þjálfun og setja sjálfa mig og fjölskylduna í fyrsta sæti. Mín framtíð er því ráðin, a.m.k. næsta árið,“ sagði Hrafnhildur í viðtali hjá Vísi.

„Ég vona svo sannarlega að ég snúi aftur seinna í þjálfun. Ég var búin að ákveða eftir að ég hætti að spila að gefa mér sjálfri og ekki síst fjölskyldunni meiri tíma. Handboltinn hefur stjórnað öllu mínu lífi allan minn feril og ég hef aldrei getað skipulagt neitt vegna handboltans. Maður fær júlí sem frímánuð og þá er maðurinn minn að vinna á fullu, þannig að maður er ekkert að skjótast í helgarferð eitthvað eða gera nokkurn skapaðan hlut. Mig hlakkar mikið til að upplifa örlítinn tíma fyrir sjálfa mig og að fá að stjórna sjálfri mér. Eins stjórnsöm og ég er, þá hef ég ekki haft mikla stjórn á mínu eigin lífi,“ sagði Hrafnhildur