Nú eru það máttarvöldin sem ráða för

Í gær birti Berglind Sigmarsdóttir Formaður ferðamálasamtakanna í Vestmannaeyjum grein á Eyjafréttum undir yfirskriftinni, dregin á asnaeyrunu. Í pistlinum fór Berglind aðeins yfir stöðu mála og hversu mikið högg það er fyrir samfélagið að ekki sé búið að opna Landeyjahöfn. Berglind beindi einnig spurningu til Vegamálastjóra og spurði hana hvert planið sé með Landeyjahöfn og nýja skipið sem er tilbúið.

Bergþóra Þor­kels­dótt­ir for­stjóri Vega­gerðar­inn­ar. Ljós­mynd/​Stjórn­ar­ráð Íslands

Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri sagði í samtali við Eyjafréttir að Vegagerðin hefði fullan skilning á þeim erfiðleikum sem við er að etja af völdum þess að ekki næst að opna Landeyjahöfn. „Í vor hefur veður og öldufar verið sérstaklega óhagstætt og komið í veg fyrir dýpkun. Aðstæður hafa verið þannig að ólíklegt verður að telja að sá verktaki sem var í fyrra hefði náð að opna höfnina eitthvað fyrr en núna. Klukkustundir þar sem aðstæður til dýpkunar hafa verið góðar hafa verið 61 stund samaborið við 336 stundir á sama tíma í fyrra. Því er ljóst að aðstæður í ár eru mun verri. Það er ekki við verktakann að sakast um það.  Sjá umfjöllun um þetta á heimasíðu Vegagerðarinnar. Vegagerðin velur ekki verktaka eftir geðþótta heldur gilda að sjálfsögðu um það stífar reglur og ræðst af tilboðunum sem inn koma. En vandamálin nú í vor snúast ekki um það, nú eru það máttarvöldin sem ráða för,“ sagði Bergþóra.

Allt er þetta gert til að lengja þann tíma sem Landeyjahöfn er opin
Bergþóra sagði að unnið væri að samningaviðræðum varðandi afhendingu á nýjum Herjólfi með bestu mögulegu þekkingu. „Við bindum síðan vonir við að nýja skipið verði til þess að oftar verði hægt að sigla í Landeyjahöfn en nú er, að ekki þurfi að dýpka jafnmikið og fyrir núverandi Herjólf. Þá er unnið að því að setja upp dælubúnað á enda garðanna í hafnarmynninu þannig að það ætti að vera gerlegt að dýpka í verra sjólagi en dæluskipin nokkurn tíma geta unnið við. Allt er þetta gert til að lengja þann tíma sem Landeyjahöfn er opin. Landeyjahöfn hefur breytt miklu í Vestmannaeyjum varðandi ferðaþjónustuna og sýna þeir erfiðleikar sem við er að etja vegna lokunar hennar hversu þýðingarmikil hún er fyrir atvinnulíf í Vestmannaeyjum. Það er mikilvægt að halda því til haga að gestir sem koma til Eyjanna eru margfalt fleiri eftir að Landeyjahöfn var tekin í notkun en var þegar eingöngu var siglt til Þorlákshafnar. Það er mikilvægt að ná að opna höfnina fyrr á vorin og halda opnu lengur en nú er gert, minnka allar frátafir svo sem verða má, það er planið, sagði Bergþóra að endingu.

VEY- Starf sérkennsluráðgjafa leikskóla