Veiðar ísfisktogaranna Vestmannaeyjar VE og Bergeyjar VE hafa gengið afar vel það sem af er árinu. Á fyrstu þremur mánuðum ársins hafa skipin aldrei veitt jafn mikið. Afli skipanna nemur 3.200 tonnum af slægðum fiski það sem af er árinu en til samanburðar veiddu þau 2.900 tonn á sama tíma í fyrra sem þá var metafli. Uppistaða aflans hefur verið þorskur, ufsi og ýsa. Í fyrstu var ýsan treg en fór að veiðast af krafti í lok marsmánaðar. Það er ekki einungis aflinn sem hefur verið góður hjá Eyjunum heldur hefur aflaverðmætið einnig aukist til muna á milli ára.

Eins og venjulega hefur veður haft mikil áhrif á veiðar skipanna. Veðrið hefur oft verið óhagstætt og þá hefur það gert það að verkum að skipin hafa verið bundin tilteknum veiðisvæðum. Lengi vel var til dæmis aðeins hægt að sækja á mið sem voru í skjóli við Vestmannaeyjar.

Í marsmánuði síðastliðnum fóru Eyjarnar samtals í 21 veiðiferð og var afli þeirra 1.500 tonn. Það gerir 34 tonn á veiðidag sem verður að teljast harla gott.