Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar síðast liðinn fimmtudag hafði Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri framsögu um ársreikning Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2018 og gerði grein fyrir helstu niðurstöðum hans.

Minnihlutinn lagði þá fram bókun þar sem þeir vildu þakka starfsmönnum Vestmannaeyjabæjar þá miklu vinnu sem farið hefur í undirbúning og vinnu við gerð ársreikninga 2018. „Ársreikningarnir gefa góða sýn af þeirri styrku og ábyrgu fjármálastjórn sem meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum hefur undanfarinn rúma áratug lagt mikla vinnu í að knýja fram og er grundvöllur þeirrar sterku rekstrarlegu stöðu sem Vestmannaeyjabær býr að og gefur sveitarfélaginu möguleika til vaxtar og þjónustuaukningar.
Um leið og bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka forverum okkar og starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir þau ósérhlífnu störf sem hafa skapað þessar eftirsóknaverðu aðstæður sveitarfélagsins, hvetja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins meirihlutann eindregið til að sýna ráðvendni í rekstri, koma í veg fyrir þenslu, hagræða þar sem möguleikar eru á og nýta fjármagnið sem íbúar samfélagsins fela okkur bæjarfulltrúum til að útdeila þeim til öflugrar þjónustu á sem allra hagkvæmastan máta og halda áfram þeirri vegferð sem viðhöfð hefur verið síðastliðin 12 ár.”

Í sinni bókun fagnaði meirihlutinn niðurstöðum ársreiknings Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2018. „Ljóst er að staða bæjarsjóðs er góð og skuldahlutföll hagstæð. Rekstrarniðurstaða A-og B- hluta gefur tilefni til bjartsýni. Ýmsar blikur eru á lofti fyrir núverandi rekstrarár og þar af leiðir að aðhalds þarf að gæta við ráðstöfun almannafjár en ársreikningurinn sem nú er framkomin ber þó með sér að svigrúm sé til staðar til þess að bæta þjónustu við bæjarbúa enn frekar. ”

Forseti bæjarstjórnar Elís Jónsson las upp niðurstöðutölur úr ársreikningi Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans og má lesa þær hér að neðan.

a) Ársreikningur sjóða í A-hluta 2018: 

Afkoma fyrir fjármagsliði                 kr. 173.057.000
Rekstrarafkoma ársins                    kr. 341.274.000
Niðurstaða efnahagsreiknings          kr.11.077.683.000
Eigið fé                                          kr. 6.126.700.000

b) Ársreikningur Hafnarsjóðs Vestmannaeyja 2018: 

Afkoma fyrir fjármagnsliði                     kr. 134.617.000
Rekstrarafkoma ársins                          kr. 154.497.000
Niðurstaða efnahagsreiknings                kr. 1.959.893.000
Eigið fé                                                kr. 1.751.703.000

c) Ársreikningur Félagslegra íbúða 2018: 

Afkoma fyrir fjármagnsliði                      kr. 9.518.000
Rekstrarafkoma ársins                           kr. 0
Niðurstaða efnahagsreiknings                kr. 321.609.000
Eigið fé ( – neikvætt)                             kr. -100.188.000

d) Ársreikningur Fráveitu Vestmannaeyja 2018: 

Afkoma fyrir fjármagnsliði                      kr. 46.183.000
Rekstrarafkoma ársins                           kr. 27.692.000
Niðurstaða efnahagsreiknings                 kr. 682.995.000
Eigið fé                                                 kr. 299.994.000

e) Ársreikningur Dvalarheimilisins Hraunbúða 2018: 

Afkoma fyrir fjármagnsliði (neikvæð)       kr. -33.779.000
Rekstrarafkoma ársins                            kr. 0
Niðurstaða efnahagsreiknings                  kr. 249.051.000
Eigið fé                                                  kr. 29.806.000

g) Ársreikningur Vatnsveitu 2018: 

Afkoma fyrir fjármagnsliði                      kr. 0
Rekstrarafkoma ársins                           kr. 0
Niðurstaða efnahagsreiknings                 kr. 400.000.000
Eigið fé                                                 kr. 0

h) Ársreikningur Vestmannaeyjaferjunar Herjólfs ohf: 

Afkoma fyrir fjármagnsliði (neikvæð)       kr. -27.130.000
Rekstrarafkoma ársins                            kr. -25.555.000
Niðurstaða efnahagsreiknings                  kr. 135.578.000
Eigið fé                                                 kr. 124.445.000

Samþykkt var með sjö samhljóða atkvæðum að vísa ársreikningi Vestmannaeyjabæjar 2018 til síðari umræðu í bæjarstjórn.