Hörður Baldvinsson, hefur verið ráðinn safnstjóri Sagnheima, byggðasafns frá 15. maí 2019. Hörður er með M.Ed. próf í lýðheilsu og kennslufræðum frá Háskólanum í Reykjavík ásamt diplómanámi í markaðs- og útflutningsfræðum og diplómanámi ásamt PMA í verkefnastjórnun. Hörður hefur mikla reynslu af rekstri sem og víðtæka reynslu á sviði verkefna- og viðburðastjórnunar. Hörður hefur starfað undanfarin sjö ár sem sviðsstjóri hjá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi ásamt því að gegna stöðu verkefnastjóra við Símenntunarmiðstöð Vesturlands.

Hörður er borinn og barnfæddur Vestmannaeyingur, sonur hjónanna Baldvins Skæringssonar og Þórunnar Elíasdóttur. Hörður er kvæntur Bjarneyju Magnúsdóttur leikskólastjóra og eiga þau tvær dætur.

Alls sóttu sex einstaklingar um stöðu safnstjóra, þrír karlar og þrjár konur. Allar umsóknir stóðust hæfniskröfur til starfsins og voru metnaðarfullar. Við viljum þakka umsækjendum kærlega fyrir auðsýndan áhuga og óskum Herði velfarnaðar í starfi.

Páll Marvin Jónsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja

Kári Bjarnason, f.h. Vestmannaeyjabæjar