Bæjarráð kom saman til aukafundar í dag til þess að ræða stöðu dýpkunar í Landeyjarhörfn. Rætt var við Bergþóru Þorkelsdóttur, vegamálastjóra, í síma. Bæjarráð Vestmannaeyja lýsir vonbrigðum með að sá tími sem gafst til dýpkunar um páskana hafi ekki verið nýttur sem skyldi. Telur bæjarráð það tvímælalaust vanefndir á samningi milli aðila um dýpkun hafnarinnar, þar sem verktakanum mátti vera það fullljóst fyrirfram að veður á páskadag og annan í páskum gaf gott tækifæri til dýpkunar. Sá tími var hins vegar ekki nýttur nema að litlu leyti. Því fóru dýrmætar klukkustundir í súginn þegar dýpkunarskip hefðu getað athafnað sig með góðu móti.

Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa margoft ítrekað áhyggjur sínar af afkastagetu verktakans til dýpkunar. Við það bætist nú að þrátt fyrir fögur fyrirheit og fullyrðingar um metnað verktakans til þess að dýpka þegar færi gefst, er lítið um efndir. Staðan er með öllu ólíðandi fyrir íbúa og fyrirtæki í Vestmannaeyjum.

Krafa Bæjarráðs er að Vegagerðin finni tafarlaust dýpkunarskip sem hefur burði til þess að opna Landeyjahöfn. Að leitað verði út fyrir landsteinana að aðila sem getur sinnt verkinu og opnað höfnina án þess að það dragist lang fram á vorið. Ekki er boðlegt að dýpkunaraðili sem sinnir verkinu hafi hvorki tækjakost né metnað til þess og haldi þannig samfélaginu í Vestmannaeyjum í gíslingu. Ekki verður búið við ástandið lengur og er aðgerða þörf.