Verðum að sýna styrk okkar og karakter í hverjum einasta leik

Pedro Hipolito þjálfari karlaliðs ÍBV í knattspyrnu.

Karlalið ÍBV í Pepsi Max deildinni, eins og efstadeild Íslandsmótsins heitir þetta árið, hefur leik í dag, laugardag, er fá Fylki í heimsókn. Leikurinn sem fer fram á Hásteinsvelli hefst kl. 14.00. Nýr þjálfari tók við liðinu af Kristjáni Guðmundssyni við lok síðasta tímabils, Pedro Hipolito. Pedro hefur verið við þjálfun á Íslandi frá því um mitt sumar 2017 er hann tók við þjálfun Fram. Þar á undan stýrði hann liði Atletivo CB í B-deildinni í heimalandi sínu, Portúgal við góðan orðstýr. Við heyrðum í honum á dögunum.

Hipolito tók heldur betur við góðu búi frá Kristjáni Guðmundssyni sem skapaði ágætis stöðugleika hjá liðinu. Gaf ungum og efnilegum Eyjamönnum tækifæri þar sem þeir sýndu að þeir eiga fullt erindi í efstu deild á Íslandi. ÍBV endaði í sjötta sæti deildarinnar, sem er besti árangur liðsins síðan 2013.
En eins og við Eyjamenn erum orðin vel vön eru fjölmargar breytingar á leikmannahópnum frá síðasta ári. „Við höfum mikið verk fyrir höndum,“ sagði Pedro í samtali við Eyjafréttir. „Af þeim ellefu leikmönnum sem mest spiluðu á síðasta ári eru aðeins fimm eða sex eftir. Þannig að við erum í raun að byggja upp alveg nýtt lið með minni kostnaði en áður. Við þurftum að sýna mikla aðgát í allri ákvörðunartöku til að koma ekki klúbbnum fjárhagsvanda. En ég held að við séum samt sem áður með lið sem hefur alla burði til að skila góðum úrslitum. Við erum góðan hóp af leikmönnum. Ég dáist að dugnaðnum og eljunni í þeim. Þeir hafa sýnt mikinn karakter sem gerir okkur kleift að horfa hnakkreist til framtíðar.“

Áfram meðal þeirra bestu
Aðspurður um markmið sumarsins sagði Hipolito þau augljóslega vera að halda liðinu í deild þeirra bestu. „Við erum meðvitaðir um til hvers klúbburinn og íbúar Vestmannaeyja ætlast af okkur og það er okkar skylda að halda liðinu upp í Pepsi-deildinni. Okkar markmið er að sameina betur fótboltaliðið og íbúa Eyjanna. Til þess að það gangi upp verðum við að sýna styrk okkar og karakter á fótboltavellinum í hverjum einasta leik. Þannig fáum við fólk til þess að trúa á okkur, styðja okkur og hvetja til dáða,“ sagði Pedro að lokum.

lau27apr14:0016:00Pepsi Max deild karla: ÍBV - Fylkir14:00 - 16:00 Hásteinsvöllur:::Fótbolti