Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 14. janúar að fela endurskoðendum reikninga bæjarins (KPMG) heildarúttekt á áætluðum kostnaði og heildarkostnaði vegna framkvæmda við Fiskiðjuna á árunum 2015 til 2018. Minnisblað KPMG var sent Vestmannaeyjabæ þann 8. apríl og var minnisblaðið til umræðu á síðasta bæjarráðsfundi.

Meginniðurstöður KPMG á framkvæmdunum við Fiskiðjuna eru þær að undirbúningur kostnaðaráætlunar hefði mátt vera markvissari, sem og framkvæmdaáætlun og áætlun um nýtingu hússins, þar sem dreginn hefði verið fram áætlaður kostnaður og áætlaðar tekjur í því skyni að undirbúa fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins á hverjum tíma. Auk þess hefði eftirlit með framvindu verkefnisins mátt vera markvissara þannig að tryggt hefði verið að bæjarstjórn hefði forsendur til að bregðast við frávikum frá fjárheimildum með samþykkt viðauka. Þá liggur fyrir að þó nokkur frávik eru frá samþykktri fjárhagsáætlun ásamt viðaukum, eða allt að 54%. Fram kemur í minnisblaðinu að samtals nema fjárhagsáætlanir með viðaukum um framkvæmdir í Fiskiðjuhúsinu 574 m.kr. á árunum 2015-2018, en raunkostnaður var um 609 m.kr. á sama tímabili.

Bæjarráð vill leggja áherslu á að vandað verði til verks við undirbúning framkvæmda á vegum bæjarins og að bæjaryfirvöld bæti vinnubrögð og áætlanagerð þegar um fjárfrekar framkvæmdir er að ræða. Hægt er að draga lærdóm af athugasemdum KPMG á framkvæmdum við Fiskiðjuna og hafa þær í huga við áætlanagerð í framtíðinni.
Samþykkt með tveimur atkvæðum H- og E-lista gegn einu atkvæði D-lista.

Allar kostnaðartölur og upplýsingar um málið lágu fyrir
Fulltrúi D-lista, Trausti Hjaltason lagði fram eftirfarandi bókun á fundinum: Það er miður að það hafi þurft að eyða öllum þessum tíma og orku starfsmanna í að velta sér uppúr hlutum sem eru löngu liðnir. Með umræddri úttekt hefur meirihluti H- og E- lista dregið úr trúverðugleika verkefnisins, embættismenn og verktakar sveitarfélagsins gerðir tortryggilegir, allt vegna fjárhagsáætlunar sem stóðst nánast uppá krónu, eða var 0,2% undir fjárhagsáætlun þegar upp var staðið.
Allar kostnaðartölur og upplýsingar um málið lágu fyrir áður en kalla þurfti til enn einnar fjárfreku úttektarinnar af hálfu H- og E-lista. Betur færi á því að fulltrúar H- og E- lista myndu horfa fram á vegin og eyða kröftum í uppbyggingu og aukna möguleika, líkt og að frjóvga jarðveg til nýsköpunar, stuðla að jákvæðu umtali um Vestmannaeyjar sem barnvænan búsetukost slíkt væri sveitarfélaginu mun fremur til heilla, frekar en þær nornaveiðar sem hér hafa átt sér stað og skaðað sveitarfélagið til lengri tíma.

Kasta rýrð á úttektina 
EFtirfarandi bókun var lögð fram af fulltrúum H- og E-lista, Njáll Ragnarsson og Elís Jónsson: Aðal markmið úttektarinnar er að draga lærdóm af þeim athugasemdum sem endurskoðandi bæjarins gerir og tryggja að bæjarstjórn sé vel upplýst um kostnað framkvæmda á vegum bæjarins. Það verður að teljast í besta falli sérstakt að fulltrúi minnihlutans í bæjarráði, ráðs sem ber að hafa eftirlit með fjárútlátum sveitarfélagsins, vilji ekki taka mark á niðurstöðum KPMG um það sem betur hefði mátt fara við áætlunargerð við framkvæmdir í Fiskiðjunni. Þess í stað kýs fulltrúi minnihlutans að kasta rýrð á úttektina.

Fjármagn var fært milli liða
Eftifarandi bókun var lögð fram af fulltrúa D-lista, Trausti Hjaltason: Úttektin staðfestir yfir allan vafa að fjárhagsáætlunargerð og vinnubrögð við framkvæmdir við Fiskiðjuna stóðust með öllu og voru á engan hátt óeðlileg líkt og bæjarfulltrúar H- og E-lista hafa ýjað að. Niðurstaða minnisblaðsins er að heildarkostnaðurinn sé 35,5 milljónum umfram áætlun eða 6,2% framúrkeyrsla.
Athygli vekur að úttektaraðili lætur hjá liða að taka með í útreikninga sína viðauka sem samþykktur var í bæjarráði þann 21. desember árið 2016 uppá 37 milljónir vegna framkvæmda í Fiskiðjunni. Þar var fært fjármagn milli liða þar sem að framkvæmdir ársins 2016 voru töluvert innan fjárhagsáætlunar það árið. Undirritaður sat þann bæjarráðsfund og hefur gögn sem staðfesta þennan viðauka við fjárhagsáætlun. Sé tekið tillit til þess lögmætt staðfesta viðauka af hálfu bæjarráðs var heildarkostnaður við verkið 1,5 milljón undir fjárhagsáætlun eða rétt rúmum 0,2% undir fjárhagsáætlun.