ÍBV tryggði sér oddaleikinn

ÍBV tryggði sér oddaleik með sigri á Haukum í kvöld í undanúrslitum Olís-deildar karla nú í kvöld. Fullt var út úr dyrum í Höllinni og rífandi stemning á pöllunum.

Eyjamenn tóku frumkvæðið mjög fljótlega í leiknum með glimrandi góðum sóknarleik og héldu því nánast allan leikin. Haukar hleyptu þeim þó aldrei mjög langt framúr. Staðan í hálfleik 15-11 ÍBV í vil.

Haukar byrjuðu síðari hálfleikin vel og söxuðu hratt á forrystu ÍBV og náðu að jafna 17-17 eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik. Lengra komust þeir þó ekki og Eyjamenn tóku fljótt aftur frumkvæðið og héldu Haukum í tveggja marka fjarlægð það sem eftir lifði af leiknum. Lokatölur 30-27 ÍBV í vil og oddaleikur framundan á Ásvöllum á laugardaginn kemur.

Skytturnar þrjár, Kristján Örn Kristjánsson, Dagur Arnarsson og Sigurbergur Sveinsson fóru fyrir sínu liði í kvöld og skiptu markaskoruninni bróðurlega á milli sín með sex mörk hver. Aðrir markaskorarar voru Hákon Daði Styrmisson með fjögur, þar af tvö úr víti. Gabríel Martinez og Fannar Þór Friðgeirsson með þrjú hvor. Elliði Snær Viðarson skoraði tvö. Markmenn liðanna voru ekki alveg að finna sig í kvöld en áttu þó nokkrar mikilvægar vörslur. Björn Viðar Björnsson varði fimm skot í marki Eyjamanna og Haukur Jónsson fjögur.

Jólafylkir 2019

Mest lesið