Vonandi mun Alþingi afgreiða þetta brýna mál með hraði

Karl Gauti Hjaltason þingmaður

Karl Gauti Hjaltason alþingismaður tók fyrir samgöngumál Eyjamanna fyrir í ræðu sinni á alþingi í gær. Hann talaði um í ræðunni að samgönguvandinn væri þrjú aðskilin mál. Hægt er að lesa ræðuna í heild sinni hér að neðan.

Herra forseti. Frá því síðastliðinn fimmtudag hefur Herjólfur siglt í Landeyjahöfn. Það skiptir Vestmannaeyinga miklu máli, bæði fyrirtæki, íbúa og þá sem sinna þjónustu við ferðamenn í Vestmannaeyjum. Ferðamönnum, og reyndar fleirum, hugnast ekki að gera sér ferð frá Þorlákshöfn vegna þess að sú sigling tekur þrjár klukkustundir fyrir opnu Atlantshafi. Hvert vor þegar siglingar hefjast í Landeyjahöfn breytist bæjarbragurinn í Eyjum og bærinn fyllist af fólki. Fyrstu fjóra dagana frá opnum í síðustu viku ferðuðust 6.500 manns með ferjunni, sem er 50% fleiri en íbúar Eyja. Herra forseti.

Samgönguvandinn við Vestmannaeyjar er um þessar mundir í raun a.m.k. þrjú aðskilin mál. Í fyrsta lagi er það ferjan sem er komin vel við aldur og nýsmíði hennar föst í Póllandi og þar virðist allt í hnút. Í öðru lagi er það dýpkun í Landeyjahöfn en þar virðist sem verktakinn hafi ekki yfir að ráða þeim tækjabúnaði sem þarf til að opna höfnina nægilega fljótt þegar sjólag gefur færi á. Þar verða samgönguyfirvöld að tryggja að gerðar verði úrbætur á svo að höfnin geti haldist opin og unnt sé að opna hana fljótar en raunin var í vor. Eins og málum er háttað tekur það of langan tíma. Í þriðja lagi er það Landeyjahöfn sjálf. Gera þarf rannsóknir á höfninni sem hafa það að markmiði að finna út hvernig höfnin og hafnargarðarnir verða lagfærðir svo að ekki safnist svona mikill sandur í og við höfnina eins og raun ber vitni og hún nýtist á þann hátt sem hún var byggð til. Þetta myndi spara bæði í kostnaði við dýpkun og einnig í betri og öruggari samgöngum.

Nú höfum við þingmenn Suðurkjördæmis lagt fram tillögu til þingsályktunar, eins og hv. þm. Páll Magnússon minntist á í ræðu, um að fela samgönguráðherra að gera óháða úttekt á Landeyjahöfn. Herra forseti. Vonandi mun Alþingi afgreiða þetta brýna mál með hraði.