Oddaleikur undanúrslita rimmu ÍBV og Hauka fór fram á Ásvöllum í gær. Fjölmargir Eyjamenn fylgdu liði sínu í Hafnarfjörðinn og stemningin frábær.

Haukar hófu leikinn af miklum krafti og náðu fjögurra marka forystu strax á 7. mínútu. ÍBV vann sig jafnt og þétt inn í leikinn en komst aldrei nær en eitt mark rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Haukar náðu þó að svara áður en flautað var til leikhlés, staðan 13-11 Haukum í vil.

Haukar héldu áfram af sama krafti í þeim síðari ok héldu ÍBV í hæfilegri fjarlægð. Þegar sjö mínútur voru til leiksloka var staðan 27-21 Haukum í vil. Eyjamenn vöknuðu þá til lífsins og náðu að minnka muninn niður í tvö mörk 28-26. Nær komust þeir ekki og spilar þar stóran part frábær frammi staða Grétars Ara Guðjónssonar, markmanns Hauka en hann varði 19 skot í leiknum. Lokatölur 29-26 Haukum í vil og Haukar því á leið í úrslit gegn Selfossi.

Markahæstur í liði ÍBV var Elliði Snær Viðarsson með 6 mörk. Aðrir markaskorarar voru Sigurbergur Sveinsson 5 – Kristján Örn Kristjánsson 4 – Dagur Arnarsson 3 – Gabríel Martinez 3 -Hákon Daði Styrmisson 2 / 2 – Róbert Sigurðarson 1 – Fannar Þór Friðgeirsson 1 / 1 – Friðrik Hólm Jónsson 1. Björn Viðar Björnsson varði 10 skot í markinu þar af tvö víti. Haukur Jónsson varði 6.