Mistök í póstsendingu skýra dræma þátttöku í skimun

Eftir frétt sem birt var í gær um dræma þátttöku kvenna í brjóstamyndatöku í Vestmannaeyjum kom í ljós að mistök áttu sér stað í póstsendingu boðsbréfa. 

Einungis hluti þeirra kvenna sem komið var að í skimun fengu bréfið sent. Vegna þessa verða ný boðsbréf send þeim konum sem ekki fengu, og aftur verður boðið upp á brjóstamyndatöku í Vestmannaeyjum seinni hluta ágústmánaðar.

„Þessi dræma þátttaka var svo úr takt við það sem við höfum verið að upplifa undanfarið, að það hlaut að vera skýring á þessu,“ segir Halldóra Hálfdánardóttir, deildarstjóri á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins: „Eftir að fréttin birtist komu þessi mistök í sendingu bréfanna í ljós og þó þau séu auðvitað mjög miður, þá er gott að skýring fannst á þessu. Og nú vonumst við eftir því að allar konur sem fá bréf mæti, hvort sem er í Vestmannaeyjum eða Reykjavík.“

Konur geta nú skoðað upplýsingar um boðun og eigin þátttöku í skipulegum skimunum fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum rafrænt á mínum síðum Ísland.is. Skimunarsagan er afrakstur samstarfs á milli Krabbameinsfélags Íslands og Þjóðskrár Íslands. Þar sjá konur hvort komið er að skoðun og geta þá pantað tíma.

Hægt er að bóka tíma hjá Heilsugæslunni í Vestmannaeyjum í síma 432 2500 eða hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í síma 540 1919.