Enn þurfa Eyjamenn að bíða eftir fyrsta sigrinum í Pepsi deild-karla en ÍBV sótti heim HK í Kórinn í Kópavogi í gærkvöld.

Eyjamenn byrjuðu leikinn vel og sóttu stíft en fengu hins vegar á sig mark á 14. mínútu eftir hornspyrnu HK. Þar með tók HK mest öll völd á vellinum. Á 28. mínútu fékk Guðmundur Magnússon, sóknarmaður ÍBV, rautt spjall fyrir brot út á miðjum velli. Við það þyngdist eðlilega róður Eyjamanna enn frekar. Í uppbótatíma fyrri hálfleiks bættu HK svo við öðru marki sínu. Staðan í hálfleik 2-0 HK í vil.

HK-menn héldu áfram góðum tökum á leiknum í síðari hálfleik en náðu þó ekki að bæta við. ÍBV virtist hinsvegar aldrei hafa trú á að geta komist inn í leikinn á ný. Lokatölur því HK 2, ÍBV 0. ÍBV situr því eitt á botninum með eitt stig eftir fjórar umferðir.

Næsti leikur strákanna er á sunnudaginn kl. 16.00 á Hásteinsvelli þar sem þeir taka á móti Víkingi frá Reykjavík. En þeir sitja sæti og stigi ofar í deildinni.