Þar sem hjartað slær

Gísli Valtýsson

Það er ekki hægt annað en samgleðjast Selfyssingum með sinn frækilega  Íslandsmeistaratitil í handbolta. Við  Eyjamenn þekkjum þessa tilfinningu, höfum átt Íslandsmeistara bæði í handbolta og fótbolta og
nánast ærst í samfögnuði.  – Fyrir lítil byggðarlög eru slíkir titlar mjög mikilvægir, þeir efla samstöðu íbúanna og  þeir auka búsetuánægu.

Undanfarin ár hefur handboltinn í Eyjum verið sú íþrótt sem fært hefur
okkur íbúunum þessa tilfinningu.Síðustu titlarnir í meistaraflokkunum í
knattspyrnunni komu til Eyja árið 2017 þegar bæði karla- og kvennalið
ÍBV urðu bikarmeistararar. Það er auðvitað ekki allt fengið með titlum, yngri flokka starfið er afar mikilvægt og þar er unnið gott starf í Eyjum. – Við erum jú með
meistaraflokkslið í efstu deildum karla og kvenna, bæði í fótbolta og
handbolta. Þar er vel að verki staðið hjá ÍBV íþróttafélagi. – Önnur
bæjarfélög utan Reykjavíkur bjóða ekki uppá slíkt.

Þar sem  hjartað ekki slær
Undanfarin ár hefur meistaraflokkslið ÍBV karla í knattspyrnu verið í
baráttu um að halda sæti sínu í efstu deild, stundum nærri fallið, –
varð í fyrra um miðja deild. Miðað við stærð bæjarfélagsins er það útaf
fyrir sig ekki slæmur árangur. En það er líka miklu kostað til. Stór
hluti liðsins aðkeyptur, útlendingar stór hluti liðsins; knattspyrnumenn
sem eru að leita að ævintýrum í „útlöndum“ flakka um heiminn til að
spila knattspyrnu og fá greitt fyrir. Sumir þokkalegir knattspyrnumenn,
aðrir ekki. Á hverju vori er helmingur knattspyrnuliðsins nýir leikmenn,
sem tekur meiripart sumarsins að gera að liði. Í kringum liðið skapast
ekki sú stemmning sem þarf og er svo mikils virði. – Íbúar þekkja ekki
marga leikmennina og  leikmennirnir þekkja ekki hvern annan, og því
síður íbúa og bæjarbrag Vestmannaeyja. Hjarta þeirra slær ekki með ÍBV,
í besta falli veikt.  – Svo hverfa þeir á brott að hausti, og nýir
leikmenn mæta svo næsta vor. – Og lítið situr eftir í  Eyjum. Þeir
Eyjastrákar sem hugsanlega hefðu átt möguleika á sæti liðinu en fengu
ekki, hætta iðkun eða hverfa líka á brott. –

Erum við bara of fámenn
Lítið bæjarfélag eins og  Vestmannaeyjar á af eðlilegum ástæðum í
erfiðleikum að manna bæði handbolta- og fótboltalið, þegar hver fæddur
árgangur er ekki stærri en kannski um 40, sem skiptist milli karla og
kvenna og handbolta og fótbolta og svo þeirra sem ekki iðka íþróttir.
Sumir hafa nefnt að annaðhvort eigi að fá leikmenn sem séu er í háum
gæðaflokki, og setja stefnuna á titil og Evrópukeppni. Slíkt yrði afar
dýrt og áhættusamt og hver á þá að borga ef illa tekst til. – En
auðvitað er það ein leiðin til að velta fyrir sér. – Mér finnst orðið
ákall um eitthvað, – en hvað, spyr sá sem ekki veit.

Ég held að knattspyrnuforystan ætti í fullri alvöru að íhuga það að
breyta um kúrs, t.d. láta Eyjamenn fylla keppnisliðin okkar að svo miklu
leyti sem nokkur kostur er, gefa þeim tækifæri til að bæta sig sem
knattspyrnumenn. Það gæti bitnað á árangri liðanna til að byrja með og
hugsanlega kostað fall um deild um sinn. En hvað svo?
Það er ekki nóg að vera góður í knattspyrnu ef hjartað slær ekki með.
Ekki tókst Jose Mourinho að ná árangri með Manchester United, þótt hann
hefði næstum allt, góða leikmenn, peninga og aðstöðu, en hinsvegar ekki
það sem kannski mestu skipti, leikgleðina og hjörtu leikmannanna.

Hvað um að fá til starfa hjá ÍBV íþróttafélagi;   knattspyrnustjóra og
handknattleikstjóra,  sem hefðu yfirþjálfunarumsjón og skipulagningu
alls handbolta og knattspyrnu hjá félaginu. Fá  Erling Richardsson fyrir
handboltann og Heimi Hallgrímsson fyrir knattspyrnuna. Svo einhver nöfn
séu nefnd. –  Eða íþróttastjóra með báðar íþróttagreinarnar.

Þar sem hjartað slær
Þegar karlalið ÍBV í handbolta spilaði í nokkur ár í neðri deild, reif
það sig upp með átaki, aga og hörku og liðið varð Íslandsmeistari árið
eftir, byggt á strákum með hjartað hjá félaginu. – Akurnesingar féllu úr
efstu deild í knattspyrnu, byggðu  upp nýtt lið með heimamönnum, það tók
tíma. Nú eru þeir efstir í efstu deild. – Selfyssingar settu á stofn
íþróttaakademíu, mynduðu sterkan kjarna í kringum handboltalið sitt.
Uppskeran kom árið 2019 með Íslandsmeistaratitli. Það lið mynduðu
strákar, sem uppaldir voru í félaginu, sem hjarta þeirra sló með, –  og
eftir markvissa uppbyggingu skilaði sér í þessum árangri.
Í handboltaliði ÍBV karla er að byggjast upp sterkur kjarni ungra
Eyjastráka sem fengið hafa tækifæri í liðinu og verið treyst fyrir
ábyrgðarmiklum hlutverkum og reynst traustsins verðir. Þar er líka
orðinn til sterkur kjarni í bakvarðasveit og mikill stuðningur
áhorfenda, sem finnst liðið vera liðið sitt. – Þar sem hjartað slær.

Gísli Valtýsson