Díana Íva fulltrúi Vestmannaeyja í Miss Universe Iceland

Miss Universe Iceland keppnin verður haldin þann 31. ágúst . Vestmannaeyjar eiga fulltrúa þar en Díana Íva Gunnarsdóttir fékk titilinn Miss Vestmannaeyjar í keppninni, enda fædd, uppalin og búsett í Vestmannaeyjum.

Díana Íva er 24 ára er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum ásamt þrem eldri systrum. Hún starfar sem sundlaugavörður í Íþróttamannvirki Vestmannaeyja og hefur gert síðast liðin fimm ár. Díana útskrifaðist sem förðunarfræðingur árið 2013, lauk námi við innanhússhönnun í lok síðasta árs og stefnir á að læra hönnun og nýsköpun eftir áramót. Hún hefur mikinn áhuga á hönnun og tísku. Díana segist njóta sín best með gott tímarit og kaffibolla. Díana eyðir frítíma sínum í útiveru með hundinum sínum, Aragorn, eða með fjölskyldu og vinum. Hún elskar að ferðast, læra nýja hluti og prófa eitthvað nýtt hvort sem það sé hérna heima eða út í heimi sem er einmitt ástæða þess að hún ákvað að taka þátt í Miss Universe Iceland 2019. Díana telur þetta vera tækifæri sem ekki má láta fram hjá sér fara og góð lífsreynsla sem ber marga áframhaldandi möguleika í skauti sér.

Stolt og þakklát fyrir að fá að keppa fyrir hönd Vestmannaeyja
„Miss Universe Iceland undirbúningurinn gengur vel þótt hann sé aðeins rétt að byrja. Æfingarnar hjá MUI byrja ekki fyrr en í lok maí en ég er strax byrjuð að undirbúa mig sjálfa, bæði líkamlega og andlega. Það er svo mikilvægt að líða vel og njóta tímans. Ég fékk titilinn “Miss Vestmannaeyjar” og er ég svo stolt og þakklát fyrir að fá að keppa fyrir hönd Vestmannaeyja. Það er ómetanlegt hvað þetta samfélag stendur alltaf þétt við bakið á manni og er ég strax farin að finna fyrir miklum stuðning,“ sagði Díana.

Fyrir þá sem hafa áhuga að fylgjast með þá er Miss Universe Iceland bæði með Facebook og Instagram síðu sem þau setja regluglega fréttir inn ásamt vefsíðunni missuniverseiceland.com. Einnig er hægt að fylgjast með mér og mínu ferðalagi á Instagram @dianaiva.