Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 6,1% frá yfirstandandi ári og verður 9.047 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2020 sem Þjóðskrá Íslands kynnir í dag. Þetta er mun minni hækkun en varð milli áranna 2017 og 2018 þegar heildarmat fasteigna í landinu hækkaði um 12,8%. Fasteignamatið byggir á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum auk fjölmargra annarra þátta sem hafa áhrif á verðmæti fasteigna. Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2019. Það tekur gildi 31. desember 2019 og gildir fyrir árið 2020.

Meiri hækkun á landsbyggðinni
Samanlagt mat íbúða á öllu landinu hækkar um 6,0% á milli ára og verður alls 6.594 milljarðar króna, þar af hækkar sérbýli um 6,6% á meðan fjölbýli hækkar um 5,3%. Fasteignamat íbúða hækkar um 5,0% á höfuðborgarsvæðinu en um 9,1% á landsbyggðinni. Fasteignamat íbúða hækkar mest á Akranesi en þar hækkar íbúðarmatið um 21,6%, um 17,7% í sameinuðu sveitarfélagi Sandgerðis og Garðs (Suðurnesjabæ) og um 16,6% í Vestmannaeyjum.