Lögreglan vill hvetja ökumenn að gæta fyllstu varúðar í umferðinni um helgina og í næstu viku. Um helgina er hvítasunnuhelgi og þá fjölgar ferðamönnum til Vestmannaeyja enda margar uppákomur um helgina. Í næstu viku fer fram hér í Vestmannaeyjum TM-mótið en þá flykkjast til Eyja ungar knattspyrnudömur og leika hér knattspyrnu í nokkra daga. Ökumenn eru sérstaklega hvattir til að fara varlega þessa daga í og við knattspyrnuvelli bæjarins og annarstaðar þar sem þessar ungu dömur eru á ferð.

Lögreglan í Vestmannaeyjum vill vekja athygli á breytingum á umferðinni sem hafa verið samþykktar og auglýstar.

1. Hamarsvegur, íþróttasvæði við Hástein
a. Bifreiðarstöður eru bannaðar sunnan megin á Hamarsvegi frá Áshmari að Brekkugötu.
B. Bifreiðastöður eru bannaðar norðan megin á Hamarsvegi frá Brekkugötu að Dalvegi.

2. Kertaverksmiðja
a. Biðskylda verður á útkeyrslu af bfreiðarstæði, norðan við Faxastíg 46, gangvart umferð um Hlíðarveg.
Innakstur er bannaður af Hlíðarvegi inn á bifreiðastæðið.

Undir áhrifum í Herjólfi
Síðustu tvo daga hafa tveir ökumenn verið kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Í öðru málinu var ökumaður sem var að koma með Herjólfi stöðvaður og kom í ljós að hann var undir áhrifum vímuefna. Við leit í bifreiðinni fundust fíkniefni. Um var að ræða kannabis og örvandi efni. Báðir þessir aðilar hafa áður komið að málum hjá lögreglunni.

18 mánaða óskilorðsbundið fangelsi
Þann 3. júní sl. gekk dómur í máli aðila sem var úrskurðaður í síbrotagæslu í mars síðastliðnum. Ákærði var dæmdur í 18 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárásir, hótanir, húsbrot, þjófnað og fíkniefnalagabrot. Enn á aðilinn ódæmd mál í réttarvörslukerfinu sem unnið er í að ljúka.