Gerðar hafa verið alvarlegar athugasemdir við framkvæmd og lögmæti aðalfundar Herjólfs ohf. og vafi er talinn leika á því að skipun stjórnar félagsins sé lögmæt.  Félagið er í fullri eigu Vestmannaeyjabæjar og heldur bæjarstjóri utan um hið eina hlutabréf í umboði bæjarstjórnar.

Nú liggur fyrir að Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri lét undir hælinn leggjast að sækja sér umboð bæjarstjórnar til aðgerða á fundinum og því bendir margt til þess að í raun hafi það sem gert var verið geðþótti hennar en ekki vilji lýðræðislegrar kjörinnar bæjarstjórnar.  Það er að mati undirritaðra í besta falli frekleg framkoma og í versta falli ólögmæt.

Þá liggur enn fremur fyrir að samkvæmt samþykktum skulu tillögur um stjórn, ráðstöfun hagnaðar og stjórnarlaun berast 5 dögum fyrir fund ellegar skal bera upp tillögu um að falla frá 5 daga reglunni á fundinum.  Þetta var heldur ekki gert.

Ofangreint verður sínu verra þegar í ljós hefur komið að það óvissuástand sem skapaðist á fundinum var nýtt til að kasta úr stjórn þeim Lúðvíki Bergvinssyni og Grími Gíslasyni sem ásamt Elliða Vignissyni, fyrrverandi bæjarstjóra, og Páli Guðmundssyni leiddu yfirtöku sveitarfélagsins á rekstrinum.

Sú stjórn sem kjörin var á aðalfundi hefur komið saman í eitt skipti.  Þar var óvissa um lögmæti rædd og var það skoðun allra stjórnarmanna að ekki væri hægt að halda fundi áfram enda ljóst að skylda og ábyrgð stjórnarmanna sé með þeim hætti að nauðsynlegt væri að fá skorið úr um lögmæti.  Fundurinn leystist því upp. Þannig hefur hin nýja stjórn samþykkt að vafi sé um lögmæti kjörs þeirra.

Með hliðsjón af þessum vafa, sjá stjórnarmenn skipaðir af Sjálfstæðisflokknum sér ekki fært að halda störfum áfram fyrr en öllum vafa um lögmæti fundarins hefur verið eytt.  Þeir hafa því óskað þess að haldinn verði aukafundur í bæjarráði svo fljótt sem verða má.  Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa þegar krafist slíks fundar þar sem samþykkt verður að láta kanna lögmæti aðalfundar Herjólfs ohf.

Sign.
Stjórnarmenn Herjólfs ohf.
Páll Guðmundsson
Arndís Bára Ingimarsdóttir