Í morgunblaðinu í dag er bent á að Vestmannaeyjaferjan Herjólfur henti vel til afnota fyrir Slysavarnaskóla sjómanna þegar ferjunni verður skipt út fyrir nýja sem er væntanleg á næstu dögum og að ráðamenn séu nokkuð velviljaðir hugmyndinni. Sæbjörgin er komin til ára sinna og þörf er á nýju hentugu skólaskipi.

Herjólfur verður áfram í Vestmannaeyjum
Í samningum vegna yfirtöku reksturs Herjólfs ohf. var tryggt að gamli Herjólfur sem er kominn vel til ára sinna en hefur reynst Vestmannaeyjum einstaklega vel verði áfram til taks í Eyjum fyrstu tvö árin og ljóst að ferjan mun áfram sinna þörfum Vestmannaeyinga.

Slysavarnaskóli sjómanna verði staðsettur í Vestmannaeyjum
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa sig jákvæða gagnvart því að ferjan verði á einhverjum tímapunkti nýtt fyrir slysavarnaskóla sjómanna með því skilyrði þó að starfsemi skólans og höfuðstöðvar verði í Vestmannaeyjahöfn. Sú ráðstöfun væri bæði skynsamleg og í takt við stefnu stjórnvalda, bæði sökum hlutfallslegrar stærðar fagstéttarinnar í samfélaginu og nálægðar við útgerð og vinnslu. Það er í takt við Byggðastefnuna að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, eykur fjölbreytileika atvinnulífs í Vestmannaeyjum ásamt því að hægt er að nýta öfluga fræðasamfélagið í Eyjum með verkefninu, bæði til kennslu og e.t.v. nýsköpunar og framþróunar fræðslunnar.

Eðlileg mótvægisaðgerð vegna loðnubrests
Samfélagið í Vestmannaeyjum var fyrir þungu höggi þegar að loðnubrestur varð staðreynd og hefur mikil afleidd áhrif á atvinnulíf í Vestmannaeyjum. Mörg dæmi eru um að stjórnvöld grípi inn í og bregðist við slíkum áföllum, bæði eru fyrri dæmi um það í Vestmannaeyjum í tengslum við fyrri alvarlega aflabresti og nú nýlegar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við fall flugfélagsins WOW. Flutningur starfsemi skólans til Vestmannaeyja gæti farið vel sem hluti af slíkum mótvægisaðgerðum

Undirrituð munu gera það að opinberri tillögu sinni á næsta fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja að komi til þess að Herjólfur verði nýttur sem skólaskip slysavarnaskóla sjómanna verði höfuðstöðvar og starfsemi skólans staðsettur í Vestmannaeyjum og þannig stuðla að fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni líkt og felst í byggðastefnu stjórnvalda.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Helga Kristín Kolbeins
Hildur Sólveig Sigurðardóttir
Trausti Hjaltason