Ísfélagið keypti nýlega vatnsskurðarvél frá Marel. Áformað er að vinna meira hráefni og bæta nýtingu með sama mannskap í frystihúsinu. Einnig hefur verið mikil uppbygging í uppsjávarvinnslu frystihússins á síðustu árum. Þegar horft er til framtíðar er krafan um að ganga vel um umhverfið hvað háværust, Eyjafréttir tóku spjall við Björn Brimar framleiðslustjóri Ísfélagsins á dögunum. 

Aðspurður sagði Björn Brimar, að mikil uppbygging hafi átt sér stað í frystihúsinu. „Síðustu átta ár hafa verið óvenju umfangsmikil í uppbyggingu uppsjávarvinnslu frystihússins og nánast allt verið endurnýjað. Mótorhús frystihússins var stækkað og tæki endurnýjuð, frystiklefi var byggður við frystihúsið, ný löndunaraðstaða í Friðarhöfn og alveg nýtt flokkunarhús fyrir uppsjávarfisk fullbúið með nýjum tækjum. Við tengdum frystihúsið og mjölverksmiðjuna með kílómetra löngum lagnaskurðiHreinsistöð var byggð og er sú öflugasta á landinu, en hún tekur við öllum afskurði og affalsvatni úr frystihúsinu og mjölverksmiðjunni og vinnur úr því prótein og fitu. Hefur allur akstur um Strandveginn með uppsjávarfisk því lagst af á tímabilinu,“ sagði Björn Brimar.

Vatnskurðarlínan verður sett upp í haust
Þrátt fyrir stórar fjárfestingar í uppsjávarvinnslunni þá hefur bolfiskvinnslan ekki verið vanrækt því fjárfest hefur verið í nýjum tækjum undanfarin ár. Sem dæmi voru keyptir nýir hausarar, flökunarvél, hráefnisflokkari, pökkunarflokkari og núna nýlega skrifuðum við undir kaup á vatnskurðarlínu frá Marel. Vatnskurðarlínan verður sett upp í haust og í leiðinni verður ýmislegt smálegt lagfært á línunni. Búnaðurinn sem við keyptum er samsettur úr aðstöðu til forsnyrtingar flaka, vatnskurðarvél og frátökubúnaði sem aðskilur hvern bita og flytur að frekari vinnslu og pökkun,“ sagði Björn Brimar. 

Enginn loðna og makrílinn fyrir austan
Af hverju hafa verið fáar vaktir síðasta misseri? Þær uppsjávartegundir sem við höfum unnið hafa verið í niðursveiflu. Engar veiðiheimildir voru gefnar út í loðnu í ár og heimildir í  heimasíldinni eru í algeru lágmarki. Við höfum verið að vinna makríl frá júlí en í fyrra veiddist makríllinn og norður-atlantshafssíldin langt austur af landinu og því fást betri afurðir úr hráefninu með því að vinna það nær miðunum í frystihúsi félagsins á Þórshöfn. Þess vegna hefur verið mest unnin bolfiskur en lítið um vaktir í uppsjávarvinnslu. 

Allar umbúðir úr umherfisvænum efnum
Hverjar eru helstu áskoranir til framtíðar? Þær eru að halda áfram að vera á tánum og vera vakandi yfir breytilegum kröfum viðskiptavina og hagsmunaðila. Krafan um að ganga vel um umhverfið og náttúruna finnst vel frá kaupendum afurða okkar og gaman að segja frá því að við erum í samvinnu við Kassagerðina að vinna að því að okkar umbúðir séu allar úr umhverfisvænum efnum. Síðasta áskorunin þar er að skipta út frauðkössum fyrir ferskar afurðir yfir í kassa úr náttúrlegum endurvinnanlegum efnum.