Nemendur við Grunnskóla Vestmannaeyja eru komnir í sumarfrí og voru skólaslit hjá öllum bekkjum í síðustu viku. Útskriftin hjá krökkum í tíunda bekk sem voru að ljúka grunnskólanum var haldin upp í höll og voru 49 krakkar útskrifuðust úr tíunda bekk og einn nemandi úr níunda bekk.

Skólastjóri GRV Anna Rós Hallgrímsdóttir sleit skólaárinu í ræðu sinni og gaf nú fyrrum nemendum skólans góð ráð til að taka með sér í framhaldið.  „Mörg ykkar hafa nú þegar ákveðið hver næstu skref verða í ykkar lífi. Flestir hafa eflaust ákveðið að halda áfram í skóla og þá búnir að ákveða í hvaða skóla þeir ætla en aðrir eru óákveðnir. Til að ná árangri í lífinu, hvort sem það er í námi eða vinnu þá eru eiginleikar eins og stundvísi, þrautseigja, samviskusemi og heiðarleiki sem skipta mestu máli. Það skiptir ekki endilega máli hvaða skóla þið veljið að fara í, heldur er þetta í ykkar höndum, hvar hæfileikar ykkar og áhugasvið liggja og hvað maður er tilbuinn að leggja á sig til að ná settu markmiði.  Verið trú sjálfum ykkur og þorið að vera þið sjálf. Eltið ykkar eigin drauma og munið að það er í lagi að gera mistök svo framarlega sem þið lærið af þeim. Þetta er eitt af því sem við í GRV höfum verið að kenna ykkur frá því í 1. bekk. Þetta er eitthvað fyrir ykkur að hugsa um en munið samt að njóta unglingsáranna því þetta er skemmtilegur tími, njótið þess að vera til,“ sagði Anna Rós meðal annars í ræðu sinni.