Eftir sjómannadag héldu skip Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, til veiða á Vestfjarðamiðum. Lögð var áhersla á að veiða þorsk og gekk það afar vel, en bæði skipin fylltu sig á skömmum tíma. Vestmannaey landaði síðan á Dalvík og Bergey á Grundarfirði. Að löndun lokinni héldu skipin strax til veiða á ný. Nú voru það veiðar á ýsu og ufsa sem voru á dagskránni og reyndar verður lögð áhersla á veiðar á þeim tegundum það sem eftir lifir kvótaársins. Bergey veiddi fyrir vestan, fyllti sig og landaði í gær í Vestmannaeyjum. Vestmannaey hélt austur fyrir og mun væntanlega landa fullfermi í Eyjum á morgun.

Arnar Richardsson, rekstarstjóri Bergs-Hugins, segir að þar á bæ séu menn afar ánægðir með aflabrögð skipanna og vonandi verði áframhald á góðri veiði í sumar.