Foreign Monkeys hafa sent frá sér ábreiðu af lagi Bjartmars Guðlaugssonar, Nú meikarðu það Gústi sem Gústi sjálfur, Jóhannes Ágúst Stefánsson söng svo eftirminnilega í upphafi 9. áratugarins. Útgáfan á þessu klassíska Eyjalagi er í tilefni af framkomu sveitarinnar á Þjóðhátíð.
Þeir Gísli Stefánsson, Bogi Ágúst Rúnarsson og Víðir Heiðdal skipa Foreign Monkeys. Þeir segja að það hafi lengi staðið til að skella í einhverja ábreiðu og ekki að ástæðulausu að Nú meikarðu það Gústi hafi orðið fyrir valinu, en Rúnar Bogason faðir Boga var einn af þeim sem stóð á bak við upphaflegu útgáfuna á sínum tíma. „Svo er þetta nú líka eitt svalasta Eyjalag sem gert hefur verið“ segja þeir félagar.
Foreign Monkeys hafa sent frá sér myndband við lagið og hefur það fengið mjög góðar viðtökur. Myndbandið má nálgast hér að neðan. Lagið er einnig aðgengilegt á Spotify.