Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja og Dr. Janus Guðlaugsson íþrótta-og heilsufræðingur skrifuðu undir samstarfssamningin í dag.

Í dag undirrituðu Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri Vestmannaeyja og Dr. Janus Guðlaugsson íþrótta-og heilsufræðingur samstarfssamning um heilsueflingar-og rannsóknarverkefnið „Fjölþætt heilsuefling 65+ í Vestmannaeyjum – Heilsuefling eldri aldurshópa“

Fyrirmynd af verkefninu er doktorsverkefni dr. Janusar Guðlaugssonar íþrótta-og heilsufræðings.  Í verkefninu var sýnt fram á að með markvissri þátttöku í fyrirbyggjandi heilsueflingu eldri aldurshópa má bæta hreyfigetu 70-90 ára einstaklinga, auka afkastagetu þeirra, sér í lagi þol, styrk og hreyfigetu, bæta lífsgæði hinna eldri og koma í veg fyrir hreyfiskerðingu.  Einnig var sýnt fram á mjög jákvæð áhrif við að draga úr áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma.  Erlend rannsóknarverkefni leiða einnig líkum að því að með aukinni og markvissri hreyfingu megi draga úr sjúkdómum sem hafa áhrif á heilastarfsemi eins og heilabilun og Alzheimer.  Þessir sjúkdómar eru vaxandi áhyggjuefni samfélaga á næstu árum þegar kemur að heilbrigði og heilbrigðisvanda næstu ára og áratuga.

Verkefnið fer af stað af fullum krafti í Vestmannaeyjum í lok sumars og eru tengiliðir við verkefnið í Vestmannaeyjum þau Óla Heiða Elíasdóttir og Erlingur Richardsson.  Að verkefninu koma auk Vestmannaeyjabæjar, Janusar og tengiliðanna, félag eldri borgara, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Líkamsræktarstöðin Hressó. Nánari kynning á verkefninu verður auglýst síðar.  „Við væntum góðrar þátttöku Vestmannaeyjinga í þessu frábæra verkefni þeim til hagsbóta og betri heilsu,“ segir í tilkynningu.