Á fundi bæjarráðs í hádeginu í gær 2. júlí lá m.a. fyrir fjögurra mánaða uppgjör Vestmannaeyjabæjar. Ennfremur var rekstraryfilit 30.04.2019 lagt fyrir bæjarráð þar sem niðurstaða málaflokka er borin saman við fjárhagsáætlun 2019.

Þar kom fram að staða bæjarsjóðs þessa fyrstu fjóru mánuði ársins er góð þrátt fyrir loðnubrest fyrr á árinu. „Tekjur eru hærri en á sama tíma í fyrra og skatttekjur í samræmi við fjárhagsáætlun. Þá er rekstrarkostnaður jafnframt samkvæmt áætlun. Miðað við stöðu bæjarsjóðs var það rétt ákvörðun meirhluta bæjarráðs að taka ekki upp fjárhagsáætlun í mars síðastliðnum. Það er ábyrgðarhluti að taka upp fjárhagsáætlun, sér í lagi þegar ekki liggja fyrir forsendur fyrir slíku. Mikilvægt er að fylgjast áfram vel með og bregðast við ef aðstæður breytast í rekstri bæjarins,” segir í fundagerð ráðsins.

Þá lagði Hildur Sólveig Sigurðardóttir, fulltrúi minnihlutans, fram bókun og benti á að auðvelt væri að missa tök á rekstrinum ef aðhalds er ekki gætt. „Augljóst er að bæjarsjóður og rekstur hans gengur vel en áratugalöng vinna Sjálfstæðismanna við að greiða niður skuldir og hagræða eins og kostur hefur verið hefur m.a. tryggt þá eftirsóknarverðu fjárhagsstöðu sem sveitarfélagið er í í dag og er öfundsverð af mörgum.
Þrátt fyrir sterka stöðu bæjarsjóðs getur þó reynst auðvelt að missa tök á rekstrinum á stuttum tíma ef aðhalds er ekki gætt til hins ítrasta.”