Menningargripur sem ætti að vera skyldueign á hverju einasta Eyjaheimili

Heimildarbók um öll þjóðhátíðarlögin allt frá árinu 1933

Laufey Jörgensdóttir fékk góða hugmynd á vormánuðum í fyrra þegar hún var eitthvað að brasa og fannst skrásetning þjóðhátíðarlaganna ekki nógu góð. Henni fannst við þurfa bæði að varðveita og lyfta betur upp þessum menningararfi okkar Eyjamanna. Hún tók málið í sínar hendur og núna í júlí kemur út bókin Undur fagra ævintýr, bók sem fjallar um öll þjóðhátíðarlögin. Laufey hélt útgáfuhóf um helgina en bókin kemur út fyrir þjóðhátíð.

„Ég hef alltaf verið áhugasöm um heimildagerð, íslenska tónlist og þar með talin þjóðhátíðarlögin og ég er mikið þjóðhátíðarbarn og langaði því einfaldlega sjálfri í svona bók. Þegar ég fór svo að skoða þetta fannst mér þetta mjög þarft verkefni, sér í lagi hve margir höfundar eru komnir vel á aldur og heimildir mögulega að glatast. Ekki síður til þess að kenna komandi kynslóðum lögin, söguna og fleira þessu tengt,“ sagði Laufey.

Útgáfan er vegleg
Bókin hefur fengið nafnið Undurfagra ævintýr og segir Laufey það vísa í gamla tímann sem markar upphafið. „Útgáfan er vegleg og í henni er að finna öll þjóðhátíðarlögin okkar frá 1933 í tímaröð, með textum, gítarhljómum og -gripum, ásamt viðtölum við ýmsa höfunda og flytjendur. Fjölmargt annað sögulegt efni er í bókinni ásamt ýmsu skemmti- og ítarefni. Hún er ríkulega skreytt fallegum ljósmyndum og enn fremur er hægt að hlusta á þjóðhátíðarlögin beint af síðum bókarinnar með því að skanna með síma kóða viðkomandi lags. Undurfagra ævintýr verður allt í senn fróðleg, skemmtileg og falleg. Menningargripur sem ætti að vera skyldueign á hverju einasta Eyjaheimili, í hvítu tjöldunum og hjá öllum þeim fjölmörgu sem unna Þjóðhátíð og tónlist hennar,“ sagði Laufey.

VEY- Starf sérkennsluráðgjafa leikskóla

Mest lesið