Nauðsynleg upprifjun

Grímur Gíslason

Það er eiginlega nauðsynlegt að líta aðeins til baka og rifja upp söguna áður en lengra verður haldið í umfjöllun um málefni Herjólfs ohf og aðkomu núverandi meirihluta að því starfi. Málið er umfangsmikið og því vert að skipta þessari sögulegu upprifjun í tvo kafla og kemur sá fyrri hér.

Samhljómur um að koma forræðinu heim til Eyja

Það eru rúm tvö ár síðan Elliði Vignisson, þáverandi bæjarstjóri, hafði samband við mig og bað mig að taka þátt í starfi hóps sem hefði það að markmiði að ná forræði á rekstri Herjólfs til Eyjamanna. Að mati bæjarstjórnar var það forsenda þess að bæta mætti samgöngur milli lands og Eyja. Ég var að sjálfsögðu strax áhugasamur um það enda bættar samgöngur við Eyjar alltaf verið eitt af mínum helstu áhuga- og baráttumálum. 

Elliði hafði einnig fengið Lúðvík Bergvinsson til að taka þátt í þessu starfi ásamt fleirum. Það kom strax í ljós á fyrsta fundi, sem að við áttum um þetta mál, að það var mikill samhljómur hjá okkur öllum sem að þessu komum um hvert skyldi stefna og hverju við vildum ná fram.

Gamlir pólitískir andstæðingar gengu í takt, með hagsmuni Eyjamanna að leiðarljósi
Við Lúðvík þekktumst ekkert  þegar að þetta samstarf hófst, nema sem pólitískir andstæðingar á árum áður, og kannski ríkti takmarkað traust okkar á milli á fyrsta fundi. Ég held samt að það hafi ekki þurft nema einn fund til að við báðir áttuðum okkur á að við vorum sammmála og til í að vinna saman að þessu verkefni, sem að við báðir höfðum mikinn áhuga á, með hagsmuni Vestmannaeyja til langrar framtíðar í huga.

Ber trúlega talsverða ábyrgð á hnútukasti í garð Lúðvíks á árum áður
Lúðvík hefur reyndar stundum rifjað það upp að trúlega hafi fáir borið ábyrgð á meira hnútukasti, á opinberum vettvangi, í hans garð en ég. Ég var kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins og ábyrgðarmaður bæði Fylkis og Stofna um langa hríð á árum áður þegar að Lúðvík var í framvarðasveit Samfylkingar, bæði í kosningum til alþingis og bæjarstjórnar. Það má því vel vera rétt hjá honum, sem að hann segir að ég hafi flutt blek í tunnum til að koma á framfæri sjónarmiðum sem að hentuðu honum ekki og að ég beri því ábyrgð á einhverjum skít í hans garð á árum áður. Ekki ætla ég að neita því. 

Þrátt fyrir það þá áttum við strax gott samstarf í þessu máli og ég held að óhætt sé að segja að gagnkvæmt traust hafi byggst upp milli okkar í þessari vinnu. Eftir því sem tíminn leið varð traustið meira og þéttara, enda báðir á sömu leið, með hagsmuni Vestmannaeyja að leiðarljósi.

Jón Gunnarsson samgönguráðherra opnaði leiðina í óþökk embættismanna
Þessi vegferð var aldrei auðveld og frá fyrsta degi var á brattann að sækja. Það sem skipti mestu máli var að það ríkti samstaða í bæjarstjórn um þetta mál og það ríkti samstaða innan okkar hóps sem störfuðum að þessu með bæjarstjórn.

Við áttum marga fundi með þáverandi samgönguráðherra, Jóni Gunnarssyni, og óhætt er að segja að hann var ákaflega velviljaður og jákvæður og ég held að hans góði vilji til að koma rekstrinum í hendur Eyjamanna hafi skipt sköpum um að við komumst á leiðarenda.

Staðreyndin er sú að það var minna en enginn vilji til þess meðal embættismanna í Samgönguráðuneyti, eða hjá embættismönnum í Vegagerðinni að halda í þessa vegferð, en Jón ráðherra hafði vilja og kjark til þess, sem skipti öllu máli. 

Þegar að við vorum komin vel af stað með viðræður sprakk ríkisstjórnin og boðað var til kosninga. Við héldum þó áfram viðræðum við ráðherrann sem leiddu til þess að undirrituð var viljayfirlýsing um að halda þá leið sem síðan var farin.

Nýr ráðherra kom  síðan í samgönguráðuneytið og ljóst var að embættismenn ætluðu sér að ná vopnum sínum á nýjan leik enda tók verkið að hiksta, þrátt fyrir undirritaða viljayfirlýsingu fyrrverandi ráðherra og yfirlýsingar viðtakandi raðherra, og þingmanns Suðurkjördæmis, um að færa rekstur Herjólfs heim til Eyja.

Dáðist að fulltrúum E-listans í bæjarstjórn
Eftir talsvert bakslag áttum við, sem sátum í þessum hópi ásamt öllum bæjarfulltrúum í Bæjarstjórn Vestmannaeyja, fund með nýjum samgönguráðherra, Sigurði Inga,  og embættismönnum úr ráðuneyti hans. Það var mjög harður átakafundur. Þessi fundur stendur mér ofarlega í minni vegna þess hversu samstilltir og sammála allir bæjarfulltrúar voru á fundinum og ég hreinlega dáðist að fulltrúum minnihlutans í Bæjarstjórn, þeim Auði Ósk Vilhjálmsdóttur og Stefáni Óskari Jónassyni, fyrir þeirra ákveðnu framgöngu á fundinum. Þar voru engar brúður á ferð, engir Konnar, heldur fulltrúar sem töggur var í.

Á fundinum kom fram órofa samstaða minni- og meirihluta Bæjarstjórnar og okkar sem sátum í þessum viðræðuhópi og allir beittu sér af fullum þunga á fundinum.

Á þessum fundi kom klárt fram að nýr ráðherra vildi halda aðra leið en við höfðum markað með fyrrverandi ráðherra en eftir þennan fund breyttist afstaðan og ég er alveg viss um að það var vegna órofa samstöðu allrar Bæjarstjórnar Vestmannaeyja og ekki síst vasklegrar famgöngu fulltrúa E-listans á þessum fundi. Þarna var fólk  á ferð sem hafði ekkert nema hagsmuni Vestmannaeyja að leiðarljósi og beitti sér í þágu þeirra. Lét ekki flokkapólitík eða hagsmuni stórfyrirtækja ráða för.

Góður samningur náðist og Herjólfur ohf stofnaður
Í framhaldinu var síðan gengið til samninga og ég  hef alltaf verið sannfærður um að niðurstaðan var mjög ásættanlegir fyrir Eyjamenn, svo ekki sé dýpra í árina tekið, ef vel yrði á spilum haldið.

Í framhaldi af þessum samningum er síðan félagið Herjólfur ohf stofnað og kosin stjórn í félaginu. Þar var ég tilnefndur sem einn af þremur fulltrúum þáverandi meirihluta í Bæjarstjórn Vestmannaeyja og var kjörinn formaður stjórnar í kjölfarið.

Við tilnefningar í stjórn í tíð fyrri meirihluta var það verkleg viðhaft, sem eðlilegt er, að á síðasta bæjarstjórnarfundi, fyrir stofnfund/aðalfund, voru lagðar fram og samþykktar tillögur bæjarfulltrúa, bæði minni- og meirihluta, um stjórnarmenn sem síðan voru bornar upp á stofnfundi félagsins.

Töluvert önnur vinnubrögð en núverandi meirihluti viðhafði og mun eðlilegri og gagnsærri, sem er merkilegt í ljósi allra loforðanna um umbætur, gagnsæi og betri stjórnsýslu sem núverandi meirihluti boðaði fyrir kosningar svo ekki sé nú minnst á einkavinavæðinguna, en meira um það síðar.

H-listi lagðist gegn því að forræði Herjólfs færðist til Eyja
Á þeim tíma sem að við vorum að berjast við ríkisvaldið um þessi mál hófst undirbúningur bæjarstjórnarkosninga og til varð framboð H-lista, sem að uppistöðu var klofningur úr Sjálfstæðisflokki.

Einhverra hluta vegna ákvað þetta framboð, H-listi, að leggjast alfarið gegn þeirri vegferð sem að við vorum á, þ.e. að koma forræði á rekstri Herjólfs heim til Eyja, og gerðu það að einu helsta kosningamáli sínu. Það var vægast sagt mjög sérstakt hjá þeim að geta fundið allt þessari vegferð til foráttu. Það virtist endurspeglast í allri umræðu þeirra um þetta mál fyrir kosningar að þau báru frekar fyrir brjósti hagsmuni Sæferða/Eimskipa en Vestmannaeyinga.

Alveg ótrúlegt sjónarmið miðað við þá miklu hagsmuni sem í húfi voru og reyndar sjálfstætt umhugsunarefni að velta því fyrir sér hvers vegna framboðið tók þennan pól í hæðina. Það er líka gott að hafa í huga í þessu samhengi að Eimskip er líklega stærsti flytjandi fisks og fiskafurða frá Eyjum og það er amk vert að velta því upp hvort hugsanlegt sé að einhverjir hugmyndafræðingar H-lista eða jafnvel einkavinir hafi haft einhverskonar hagsmunatengsl í þeim efnum?

Hafa Sæferðir/Eimskip væntingar um stuðning eftir breytingar á stjórn?
Það var þess vegna eftirtektarvert að heyra framkvæmdastjóra Sæferða koma í viðtal fljótlega eftir að skipt hafði verið um fólk í stjórn Herjólfs ohf og tala um að þá hlakkaði til að bjóða í rekstur Herjólfs eftir 2 ár.

Eins og ég hef sagt áður var fyrrverandi stjórn alls ekki á þeirri leið að stefna á það að reksturinn yrði boðinn út að nýju eftir tvö ár svo að Sæferðir/Eimskip gætu boðið á ný í reksturinn og tekið hann yfir með hagsmuni fragtflytjenda, þ.e. þeirra sjálfra, í forgrunni eins og verið hefur undanfarin ár.

Því vöktu þessi orð framkvæmdastjóra Sæferða enn meiri athygli í mínum huga í ljósi þess sem fullyrt hefur verið við mig, að núverandi stjórnarformaður hafi alltaf talað gegn því að færa forræðið á rekstrinum til heimamanna. Kannski, þess vegna, telja fyrrum rekstraraðilar að þeir megi vænta stuðnings frá nýjum stjórnarformanni Herjólfs ohf. í þessu efni?

Þó að H-listinn væri alfarið á móti þeirri vegferð að koma rekstri Herjólfs í hendur heimamanna,  þá sögðust þau þó samt ætla að halda henni áfram, kæmust þau til valda að loknum kosningum. Það var kannski klókt af þeim til að villa um fyrir einhverjum kjósendum, með því að gefa út óljósa yfirlýsingu um þetta en ég held að nú sé öllum ljóst að heill hugur fylgdi ekki máli í þeim efnum, en meira um það síðar.

Skiptist í tímabil jákvæðni og neikvæðni í garð verkefnisins
Ég held að það megi skipta þeim tíma sem að ég starfaði að þessu i tvö tímabilað. Tímabil jákvæðs stuðnings fyrrverandi bæjarstjórnar og tímabil þar sem að nýr meirihluti í núverandi bæjarstjórn hafði undarleg afskipti af störfum stjórnar, þannig að maður hafði á tilfinningunni að allt væri gert til að reyna að setja fótinn fyrir það. Sú fótavinna gekk reyndar frekar illa en einnig var reynt, með beinum pólitískum áhrifum, að koma vildarvinum fyrir innan fyrirtækisins.

Þrátt fyrir ýmsar uppákomur úr þessari átt eyðilagði það aldrei gleðina í verkefninu, þ.e.  fyrir okkur sem að þessu störfuðum, því að okkur fannst við alltaf vera að vinna að svo jákvæðu og skemmtilegu verkefni þar sem hagsmunir Vestmannaeyja voru leiðarljósið. Við létum þessar undarlegu uppákomur því ekki hafa nein áhrif.

Svona eftirá að hyggja er kannski merkilegast að velta fyrir sér af hverju þetta fólk var alltaf á neikvæðu nótunum og í niðurrifinu gagnvart þessu mikilvæga verkefni. Það virtist a.m.k. ekki mikil jákvæðni eða gleði yfir því á þeim bænum. Enginn virtist „happy“ með verkefnið meðan að fráfarandi stjórn vann að því. Nú kann öldin að vera önnur!

Kaflaskil með nýjum meirihluta bæjarstjórnar
Það er óhætt að segja að kaflaskil hafi orðið í þessu starfi okkar, við að undirbúa, skipuleggja og móta yfirtöku á rekstri Herjólfs, að  afloknum bæjarstjórnarkosningum og með myndun nýs meirihluta H- og E-lista.

Það er því við hæfi að hafa kaflaskil í þessari upprifjun hér en næsti kafli hennar mun líta dagsins ljós mjög fljótlega.

Grímur Gíslason