Frábær laugardagur á Þjóðhátíð – myndir

Laugardagur Þjóðhátíðar Vestmannaeyja var velheppnaður eins og hátíðin öll hefur verið.

Á barnadagskránni mætti Íþróttaálfurinn með Sigga sæta, Sollu Stirðu og Höllu hrekkjusvín með sér. Þá mætti Friðrik Dór einnig og tók nokkur lög með krökkunum. Þegar hann hafði lokið af sér tóku svo við stórstjörnur framtíðarinnar í Söngvakeppni barna.

Fram að kvöldvöku lék svo Eiríkur Hafdal og söng í Ölgarðinum. Kvöldvakan var velheppnuð og brekkan þétt skipuð og held ég að óhætt sé að segja að brekkan hafi sjaldan eða aldrei verið jafn þétt skipuð. Sér í lag á laugardagskvöldi. Það verður því fróðlegt að sjá hversu stór hún verður í kvöld.

Í ár er sú nýjung í dagskránni að tveir kynnar eru á Þjóðhátíðinni. Okkar maður Bjarni Ólafur Guðmundsson, Daddi, hefur staðið vaktina undanfarin ár en fékk frí í kvöld og tók Þórhallur Sigurðsson eða Laddi við kynnastörfunum.

Eyjafólkið í Daystar hóf leik á kvöldvökunni eftir að tilkynnt hafði verið um sigurvegara í búningakeppninni og tók svo við hvert tónlistaratriðið við hvert af öðru. Jón Jónsson tók sína slagara, Magni og félagar í Killerqueen léku lög hljómsveitarinnar Queen, Friðrik Dór lék sín bestu lög og FM95Blö tóku svo við og fengu til sín ýmsa gesti. Þeir töldu svo niður í stórglæsilega flugeldasýningu Björgunarfélags Vestmannaeyja.

Óskar Pétur lét sig ekki vanta frekar en fyrri daginn og smellti af herlegheitunum.

Mest lesið