Eins og kunnugt er kom ný Vestmannaey til landsins um miðjan síðasta mánuð. Nú hefur gamla Vestmannaey fengið nafnið Smáey og einkennisstafina VE 444. Útgerðarfélagið Bergur-Huginn hefur áður átt skip sem borið hefur nafnið Smáey en það var selt árið 2012 til Grenivíkur.
Gert er ráð fyrir að ný Bergey, sem er systurskip nýrrar Vestmannaeyjar, komi til landsins í septembermánuði nk. en núverandi Bergey hefur verið seld Guðmundi Runólfssyni hf. í Grundarfirði og er gert ráð fyrir að skipið verði afhent nýjum eiganda í síðasta lagi í septembermánuði nk.