Íslandsbanki og Steini og Olli ehf. hafa skrifað undir samning um byggingu á nýju útibúi fyrir Íslandsbanka í Vestmannaeyjum. Nýja útibúið verður staðsett á hinum svokallaða Ísfélagsreit eða nánar tiltekið að Strandvegi 26. Byggingarframkvæmdir eru hafnar og eru verklok áætluð haustið 2020. Öll hönnun og virkni nýja útibúsins tekur mið af sveigjanleika í skipulagi, nýrri tækni, öflugri ráðgjöf og þjónustuupplifun viðskiptavina.

Íslandsbanki fagnar í ár 100 ára afmæli útibúsins í Vestmannaeyjum og mun fagna því með reglulegum viðburðum. Útibúið hóf starfsemi 30.október 1919 í húsi Kristmanns Þorkelssonar, Steinholti við Kirkjuveg. Í dag er það til húsa að Kirkjuvegi 23 þar sem útibú bankans og forvera hans hafa verið allt frá 1952.

„Það er ánægjulegt að tilkynna um flutning í nýtt og glæsilegt útibú á 100 ára afmæli Íslandsbanka í Vestmannaeyjum. Útibúið á sér langa og farsæla sögu sem við viljum fagna með heimafólki í ár enda skiptir þar mestu máli sterk og góð viðskiptasambönd. Okkar markmið er að veita bestu bankaþjónustuna og við hlökkum til að taka á móti viðskiptavinum í nýju húsnæði,“ sagði Þórdís Úlfarsdóttir, útibússtjóri Íslandsbanka í Vestmannaeyjum.