Ein af þeim stóru en ekki sú stærsta

Dóra Björk Gunnarsdóttir

Nú þegar allflestir Þjóðhátíðargestir hafa komist til sinna heima heyrðum við aðeins í Dóru Björk Gunnarsdóttir í Þjóðhátíðarnefnd um hvernig hátíðin gekk fyrir sig. „Eins og undanfarin ár þá vorum við mjög heppin með gesti hátíðarinnar og voru þeir upp til hópa til mikillar fyrirmyndar. En því miður þá leynast alltaf svartir sauðir innan um. Við vorum mjög heppin með veður og gerir það allt utanumhald auðveldara fyrir okkur,” sagði Dóra Björk.

Hún sagði jaframt að flestar þær breytingar sem gerðar voru milli ára hefðu heppnast vel. „Þær breytingar sem við gerðum varðandi umferðina og bílapassa skiluðu tilætluðum árangri í að auka öryggi gangandi gesta. Í fyrra lentum við í vandræðum með raðirnar þegar gestir voru að nálgast armböndin en núna í ár gekk þetta mun betur. Ölgarðurinn var nýjung hjá okkur en þar vorum við með trúbador og hamingjustund en var sú nýjung ekki nýtt eins og við vonuðumst eftir.  Allt í kringum tjöldin gekk nokkuð vel, súlurnar fóru niður á miðvikudag og var eina vandamálið þá að fólk var ekki að virða þær tímasetningar sem gefnar voru upp þannig að lítið var hægt að vinna í dalnum þann dag, öll tjöld fóru svo upp á fimmtudag og virtu gestir okkar þar tímasetningarnar mun betur.”

Sungið og trallað í Ölgarðinum.

Þrátt fyrir að aðeins örfáir dagar séu síðan hátíðin endaði er Herjólfsdalur orðinn ótrúlega hreinn og fínn og varla að sjá að þar hafi verið vel á annan tug þúsunda að skemmta sér. „Þrifin gengu mjög vel en þurfa gestir hátíðarinnar og þá sérstaklega heimamenn að leggja hönd á plóginn í þessum þrifum ef allir taka með sér poka í brekkuna og hreinsa í kringum sín tjöld þá verður Dalurinn okkar mun snyrtilegri og vinnan mun auðveldari fyrir þá sem koma í þrifin,” sagði Dóra Björk sem vildi nota tækifærið og þakka þeim fjölmörgu sem lögðu hönd á plóginn. „Ég vil nota þetta tækirfæri til að þakka öllum þeim sem tóku þátt í undirbúningi fyrir hátíðina og hjálpuðu til á hátíðinni sjálfri fyrir sitt framlag. Fólkið okkar í Dalnum hefur eytt ómældum tíma í Herjólfsdal og hefur samstarfið gengið frábærlega þar sem allir hafa sitt hlutverk. Félagið og þjóðhátíðarnefnd gætu ekki staðið undir þessari hátíð nema með hjálp margra aðila sem eru alltaf boðnir og búnir þegar eitthvað vantar. Samstarfsfólkið mitt í Þjóðhátíðarnefnd hefur lagt ómælda vinnu á sig bæði í aðdragenda hátíðarinnar sem og á hátíðinni sjálfri – samstarfið í nefndinni hefur verið gott og eru mikil forréttindi að vinna með þessu frábæra fólki en undirbúningur Þjóðhátíðar 2019 tók tæpa 10 mánuði og því margar vinnustundir farið í þetta verkefni. Það eru margir viðbragsaðilar sem standa vaktina þesa helgi og hefur samstarf allra þessara aðila gengið mjög vel. “

Fjöldin var gríðarlegur í brekkunni strax á föstudagskvöldið.

En hvað var margt í Dalnum þegar mest var? „Þetta var ein af stóru hátíðunum okkar en ekki sú stærsta en það fór meira fyrir gestum okkar en oft áður þar sem veðrið og dagskráin orsökuðu það að allir voru í brekkunni og voru því brekkan mjög stór öll kvöldin.“

Mest lesið