Íslensk skip lönduðu tæp­lega 1.259 þúsund tonn­um af afla á síðasta ári, um 79 þúsund tonn­um meira en árið áður. Afla­verðmæti árs­ins nam enn frem­ur 128 millj­örðum króna og jókst um 15,6% á milli ára.

Verðmæti afl­ans eykst því meira en sá afli sem landað er, en afla­aukn­ing­in nem­ur 7% sam­an­borið við 15,6% aukn­ingu afla­verðmæt­is.

Að því er fram kem­ur á vef Hag­stofu veidd­ust alls rúm­lega 480 þúsund tonn af botn­fiski, sem er 51 þúsund tonn­um meira en árið 2017. Afla­verðmæti botn­fiskafla nam tæp­um 91 millj­arði króna árið 2018 og jókst um 17,9% frá fyrra ári. Þorsk­ur er sem fyrr verðmæt­asta fisk­teg­und­in með afla­verðmæti upp á rúma 57 millj­arða króna.

Í tonn­um talið veidd­ist mest af upp­sjáv­ar­fiski, en árið 2018 veidd­ust tæp­lega 739 þúsund tonn, eða 20,5 þúsund tonn­um meira en árið 2017. Mest veidd­ist af kol­munna, eða tæp 300 þúsund tonn, á meðan sam­drátt­ur varð í veiðum á síld, loðnu og mak­ríl. Afla­verðmæti upp­sjáv­ar­afla jókst um 2,6% miðað við fyrra ár og var 24,4 millj­arðar króna árið 2018.

Af flat­fiski veidd­ust rúm­lega 27 þúsund tonn árið 2018, sem er 23,6% aukn­ing frá fyrra ári. Afla­verðmæti flat­fiskaf­urða jókst um 35,6% miðað við árið 2017. Lönd­un á skel­fiski og krabba­dýr­um var tæp­lega 12.500 tonn árið 2018 sem er magn­aukn­ing um 18,3% frá ár­inu áður. Verðmæti skel- og krabba­afla jókst um 7,2% miðað við 2017.

Mbl.is greindi frá.