“Nú næstu daga eigum við von á að fyrstu lundapysjurnar finnist í bænum. Eins og áður biðjum við ykkur endilega að koma með pysjurnar til okkar í vigtun og mælingu,” segir í tilkynningu frá Pysjueftirlitinu. “Að þessu sinni verður pysjueftirlitið staðsett í nýjum húsakynnum Sea Life Trust og gengið inn að austanverðu. Við munum auglýsa nánar um opnunartíma og annað þegar fjör færist í leikinn og pysjunum fjölgar. Til að byrja með verður tekið á móti þeim í afgreiðslunni.”

Í spjalli við Eyjafréttir í byrjun júlí sagðist Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, eiga von á fyrstu pysjunum uppúr Þjóðhátíð. Heldur hefur þó hægst á vexti pysjanna og vilja menn helst kenna samkeppni um fæði við makrílinn þar um. Lundinn er þó enn að bera í holurnar og lítill sem enginn pysjudauði. Það má því búast við mikið af pysjum.

“Í fyrra kom mesti fjöldi pysja frá upphafi pysjueftirlitsins, eða um 5.600 pysjur. Núna eigum við von á enn fleiri pysjum og því um að gera að byrja að safna pappakössum og gera klárt,” segir í tilkynningunni frá Pysjueftirlitinu.