Á fundi bæjarráðs í gær var meðal annars rædd staða flugsamganga til Vestmannaeyja í vetur en bæjarráð hefur áður lýst áhyggjum sínum af stöðunni. „Öflugt innanlandsflug er ein forsenda fyrir dreifðri byggð í landinu og nú er orðið ljóst að ekki er aðeins verið að fækka flugferðum til Vestmannaeyja heldur einnig annarra áfangastaða á landinu,” segir í fundagerð ráðsins.

„Bæjarráð hvetur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fjármálaráðherra til að tryggja svokallaða skosku leið sem er niðurgreiðsla á flugfargjöldum fyrir fólk sem býr fjarri höfuðborginni. Góðar flugsamgöngur eru nauðsynlegar til að tryggja aðgang íbúa landsbyggðarinnar að nauðsynlegri og sérhæfðri þjónustu sem aðeins er í boði á höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægt er að skoska leiðin verði innleidd eigi síðar en í ársbyrjun 2020 líkt og kveðið er á um í samgönguáætlun. Til þess að flugið verði að raunhæfum valkosti þarf að koma til umtalsverð lækkun á flugfargjöldum og er skoska leiðin ein leið til þess”