Þorlákshöfn ekki klár í að taka á móti nýja skipinu

„Ófært er orðið til Landeyjahafnar og því siglir gamli Herjólfur til Þorlákshafnar frá Vestmannaeyjum kl. 15:30 og frá Þorlákshöfn kl 19:15,“ segir í tilkynningu á Facebook síðu Herjólfs sem birt var rétt í þessu.

Spáð er hækkandi ölduhæð við Landeyjahöfn í dag en kl. 13.53 stóð hún í 2,5 m. „Það er mikill vindur þarna við höfnina og aðstæður fara hratt versnandi og því var ákveðið að næsta ferð yrði farinn í Þorlákshöfn,“ sagði Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdarstjóri Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. í samtali við Eyjafréttir. „Við skiptum ekki milli hafna af gamni okkar því að þetta kostar okkur mikla vinnu. Þurfum t.d. að kalla út nýtt gengi í þrif í Þorlákshöfn, redda rútu þaðan í Landeyjahöfn fyrir þá sem eiga bíla þar og ýmislegt fleira. Þar fyrir utan er Landeyjahöfn alltaf fyrsti kostur og þangað viljum við sigla,“ sagði Guðbjartur.

En afhverju sá gamli en ekki nýi? „ Það er mjög auðvelt að svara því. Höfnin í Þorlákshöfn er ekki klár til að taka á móti nýja skipinu. Gera þarf álíka breytingar þar og gerðar voru hér í Eyjum. Breyta ekjubrúnni og bæta fendera til dæmis. Þessum lagfæringum er ekki lokið og því neyðumst við til að grípa til gamla skipsins,“ sagði Guðbjartur. „Það er langt því frá að við treystum ekki nýja skipinu í siglingu til Þorlákshafnar. Það hefði verið mjög heppilegt og ánægjulegt að prófa að sigla því þangað við þessar aðstæður en því miður er sá möguleiki bara ekki fyrir hendi.“

 

Þeir farþegar sem áttu bókað frá Vestmannaeyjum kl. 14:30 , færast sjálfkrafa í ferðina kl. 15:30 til Þorlákshafnar. Þeir farþegar sem áttu bókað frá Landeyjahöfn kl. 18:15, færast sjálfkrafa í ferðina kl. 19:15 frá Þorlákshöfn.

Þeir farþegar sem áttu bókað í aðrar ferðir, þurfa að hafa samband við afgreiðslu í síma 481-2800 til þess að færa sig í næstu lausu ferð, eða fá endurgreitt.

04 – uppbyggingasjóður

Mest lesið