Mikið af olíublautum fuglum

Sea life trust

Það er í mörg horn að líta hjá starfsfólki Sea life þessa dagana þegar pysjutíminn er að nálgast hápunkt. Því miður er ekki allir fuglarnir sem berst til þeirra jafn sprækir, því mikið hefur borist af olíublautum fuglum inn á safnið. „Við fengum óvenju marga fugla til okkar í byrjun árs. Langvíur, álkur, teistur, lunda, skarf og hávellu. Flestir voru þeir að finnast í Höfðavík, þannig að það hefur líklega verið olíuflekkur hér rétt sunnan við Heimaey. Fæstir þeirra fugla sem lenda í olíu ná landi og enn færri eru svo heppnir að finnast. Það eru nágrannar mínir, þau Valgeir og Kolka sem eru að finna flesta þessara fugla. Við náum sem betur fer að hreinsa þá flesta og koma þeim til heilsu. Stundum eru þeir þó það langt leiddir að þeir eiga enga von. Þeir reyna sjálfir að hreinsa olíuna úr fiðrinu og fá þá olíu í meltingarveginn. Það er mjög slæmt fyrir þá og þá er erfitt að hjálpa þeim,“ Segir Margrét Lilja Magnúsdóttir, Ekkert er vitað um það hvaðan þessir flekkir koma og af hverra völdum. Ljóst er að flekkir sem þessir geta valdið miklum skaða í lífríkinu. „Olían veldur því að fiður fuglanna heldur ekki lengur vatni frá líkamanum og þeir blotna mikið. Þeir verða smám saman þyngri og þyngri í vatninu. Hér á norðurslóðum er þetta sérstaklega slæmt því að fuglarnir hreinlega krókna.“
Lundinn á myndunum fannst við innsiglinguna en þaðan koma reglulega fuglar til hreinsunar á safninu. „Líklega þurfum við að hreinsa hann aftur. Áður en við sleppum honum verður hann prófaður. Þegar við hreinsum fuglana notum við sápu, sem tekur einnig náttúrulegu fituna sem er í fiðrinu og gerir fuglana vatnshelda. Það tekur þá yfirleitt einhverja daga fyrir þá að ná upp fitunni í fiðrið aftur. Þá fyrst er hægt að sleppa þeim, sagði Margrét.

04 – uppbyggingasjóður

Mest lesið