Tekist var á um breytingar á bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar á fundi bæjarstjórnar í síðastliðinn fimmtudag. Fulltrúar meirihlutans bókuðu þá eftirfarandi

Bæjarfulltrúar meirhlutans taka undir bókun bæjarráðs frá 30. júlí síðastliðnum vegna bæjarmálsamþykktar. Við umræður um ársreikning Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2018 komu fram athugasemdir endurskoðenda um ýmsar greinar í bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar. Í framhaldinu var óformlega rætt og ákveðið í bæjarráði að fela stjórnsýsluendurskoðanda bæjarins framgang málsins og að gera tillögur að breytingum á samþykktinni.

Ásakanir um brot á Siðareglum
Hildur Sólveig Sigurðardóttir bæjarfulltrúi D-lista bókaði þá:
„Formaður bæjarráðs gerist sekur um að brjóta siðareglur kjörinna fulltrúa þegar hann vitnar í „meint“ orð undirritaðrar á umræddum bæjarráðsfundi.“

Þar á eftir fylgdi bókun frá bæjarfulltrúum D-lista:
„Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir bókun bæjarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og þykir miður að fulltrúar meirihlutans hafi farið fram úr sér, hafið verk áður en ákvörðun hefur verið tekin um framkvæmdina af hálfu bæjarstjórnar. Undirritaðir bæjarfulltrúar eru á engan hátt andvígir endurskoðuninni, en gera athugasemdir við það verklag að endurskoðun hafi hafist áður en málið kom til umfjöllunar í bæjarstjórn. Að hafist sé handa með aðkeyptri þjónustu sérfræðings, án þess að fyrir liggi ákvörðun og samþykki bæjarstjórnar um að fara í endurskoðunina. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera athugasemd við að í bókun meirihlutans eru lagðar fram fullyrðingar en enginn bæjarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins kannast við að óformlega hafi verið ákveðið í bæjarráði að fela stjórnsýsluendurskoðanda framganga málsins, líkt og kveðið er á um í bókun ráðsins. Fundir bæjarráðs og bókanir um slíkar ákvarðanir ættu að vera formlegar.“

Óformlegum samskiptum lokið
Breytingar á bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum en Trausti Hjaltason gerði grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun.

„Ég greiði atkvæði með afgreiðslu málsins en mér þykir mjög miður að bæjarfulltrúinn Njáll Ragnarsson sem jafnframt er formaður bæjarráðs skuli hafa lýst því yfir á fundinum að óformlegum samskiptum milli meiri- og minnihluta sé lokið. Samskipti og samtal milli bæjarfulltrúa er afar mikilvægur þáttur fyrir bæjarfélagið.“

Tillögur að breytingum
Seinna á fundinum var málið tekið aftur til umræðu við afgreiðslu á annari fundargerð úr bæjarráði.

Þá bókuður fulltrúar H- og E- lista:
„Við stjórnsýsluendurskoðun síðasta vor, á starfsemi Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2018, komu fram athugasemdir frá Sesselju Árnadóttur, stjórnsýsluendurskoðanda Vestmannaeyjabæjar, um ákveðnar greinar í bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar (samþykkt um stjórn og fundarsköp Vestmannaeyjabæjar nr. 561/2013, sbr. samþykkt nr. 334/2014) sem þyrfti að uppfæra og leiðrétta.“

Í framhaldinu var óformlega rætt og ákveðið í bæjarráði að fela Sesselju að leggja fram tillögur að breytingum á samþykktinni sem hún taldi nauðsynlegar. Umræddar tillögur hafa tvívegis verið lagðar fyrir bæjarráð.

Eftir fund ráðsins þann 30. júlí sl. þar sem breytingarnar voru lagðar fram, funduðu fulltrúar bæjarráðs með Sesselju og lagði fulltrúi sjálfstæðisflokksins til að farið yrði í ítarlegri breytingar/lagfæringar á bæjarmálasamþykktinni en Sesselja hafði áður lagt til.

Málið var síðan aftur lagt fyrir bæjarráð þann 20. ágúst sl. og lagði bæjarráð þar til við bæjarstjórn að samþykkja að fara í endurskoðun á bæjarmálasamþykktinni í samræmi við tillögur bæjarráðs þar um, þ.e. að taka fyrir tillögur stjórnsýsluendurskoðanda bæjarins auk óska fulltrúa minnihlutans um frekari breytingar á samþykktinni í heild sinni.

Gott samráð og breið samvinna fulltrúa meirihluta og minnihluta í bæjarráði hefur einkennt þessa vinnu fram til þessa og verður vonandi áfram.

Andrúmsloft í samskiptum ekki verið nógu gott
Bókun frá bæjarfulltrúum D-lista:
„Bæjarmálasamþykktin þarfnast endurskoðunar. Málið er komið í réttan farveg og bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru fullir tilhlökkunar á að takast á við þá vinnu.“

Bókun frá bæjarfulltrúum H- og E- lista:
„Það er einlægur vilji meirihluta bæjarstjórnar að eiga í sem bestum samskiptum við minnihluta bæjarstjórnar. Því miður hefur andrúmsloftið í samskiptunum ekki verið nógu gott. Ýmsilegt er sagt í hita leiksins en það er okkar ábyrgð að starfa saman sem kjörnir fulltrúar sveitarfélagsins. Og ætlum við að gera það.“

Bókun frá bæjarfulltrúum D-lista:
„Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka heils hugar undir að góð samskipti séu mikilvæg, og munum við leggja okkar af mörkum að svo verði.“

Liður 1, Breytingar á bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum, Helga Kristín Kolbeins og Íris Róbertsdóttir gerðu grein fyrir atkvæði sínu.