Fyrir utan venjubundnar æfingar þá var síðasti mánuður óvenju annasamur hjá slökkviliðinu þar sem það var ræst fjórum sinnum út af Neyðarlínu með stuttu millibili.
Fyrsta útkallið kom aðfaranótt 10.ágúst þar sem tilkynnt var um brennandi bíl í innkeyrslu við Boðaslóð. Greiðlega gekk að slökkva í bílnum sem engu að síður var mjög illa farinn og líklegast ónýtur á eftir. Í þessu tilfelli var greinilega um íkveikju að ræða og telst málið upplýst.
Næsta útkall kom svo aðfaranótt 13. ágúst þegar tilkynning barst um eld í 3.hæða húsi við Faxastíg en þar höfðu íbúar vaknað upp við eld og reyk í svefnherbergi. Náði húsráðandi að slökkva eldinn með handslökkvitæki áður en slökkviliðið kom en töluverður reykur var kominn og þurfti slökkviliðið að reykræsta íbúðina. Voru íbúar fluttir á heilsugæslu til skoðunar þar sem grunur var um reykeitrun hjá a.m.k. einum þeirra. Eldsupptök eru ekki kunn á þessari stundu en málið er í rannsókn.
Þann 14. ágúst var slökkviliðið svo kallað að íbúð í Kleifahrauni þar sem brunaviðvörunarkerfi hafði farið í gang og ekki náðist í neinn tengilið. Engin hætta reyndist hins vegar á ferðum heldur hafði eldamennska sett kerfið af stað.
Fjórða og síðasta útkallið kom svo að kvöldi 21.ágúst þar sem vegfarandi taldi sig sjá logandi eld í húsi við Hrauntún. Við nánari skoðun reyndist eldurinn hins vegar bara vera flöktandi ljós í glugga og engin hætta því á ferðum
Síðustu æfingar höfum við svo verið að nýta til að prófa og æfa okkur með slökkviteppið sem Eykyndill gaf okkur fyrr á þessu ári en með því náum við að slökkva t.d. í logandi bílum án þess að þurfa að sprauta dropa af vatni á eldinn.

tekið af facebook síðu Slökkviliðs Vestmannaeyja