Hugmynd Stefáns Jónassonar sem situr í afmælisnefnd Vestmannaeyjabæjar að fá ljósmyndara í bænum til að sýna Eyjamönnum og gestum það sem þeir og þær hafa verið að gera í gegnum árin fékk heldur betur byr undir vængi. Niðurstaðan er röð ljósmyndasýninga í Einarsstofu næstu þrettán laugardaga klukkan 13.00 til 14.30. Alls eru þátttakendur um 40.

Óskar Pétur Friðriksson verður fyrstur í röðinni og sýnir hann myndir sem hann hefur tekið við höfnina. Óskar Pétur var til sjós og vann í tvo áratugi við smíðar og þá oftast fyrir neðan Strandveg. Myndirnar sýna þróun hafnarinnar, breytingar á flotanum og vinnubrögð sem í dag heyra sögunni til. Þarna er líka fólk sem setti svip á bæjarlífið. Það er því sannarlega ástæða til að skella sér í Einarsstofu á laugardaginn og kíkja aðeins til baka.