Á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var nú í kvöld bar Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri upp tillögu þess eðlis að hætta við þá ákvörðun sem þegar hafði verið tekin að bæjarskrifstofurnar yrðu sameinaðar á þriðju hæð Fiskiðjunnar. Í tillögu meirihlutans var einnig lagt til að teknar yrðu upp viðræður við Þekkingarsetur Vestmannaeyja um leigu á þriðju hæðinni, til samskonar nýtingar og nú er á annarri hæð Fiskiðjunnar.

Sú ákvörðun sem hafði verið tekin gerði ráð fyrir að öll þrjú svið bæjarins, þ.e. Stjórnsýslu- og fjármálasvið sem staðsett er á annarri hæð í Landsbankahúsinu, Fjölskyldu- og fræðslusvið sem staðsett er á Rauðagerði og svo Umhverfis –og framkvæmdasvið sem staðsett er í húsnæði Vestmannaeyjahafnar yrðu færð í eina og sama húsnæðið, á sömu hæðinni með góðu aðgengi fyrir alla. Slíkt byði auk þess upp á talsverða rekstrarhagræðingu.

Engar upplýsingar um málið
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu um að málinu yrði frestað til næsta bæjarstjórnarfundar þar sem um væri að ræða stóra og viðamikla ákvörðun og engar upplýsingar um málið hefðu fylgt með í fundarboði fundarins.

Í framhaldi var tekið u.þ.b. 20 mínútna fundarhlé og að því loknu dró meirihluti bæjarstjórnar til baka þá tillögu sem bæjarstjóri hafði lagt fram og lögð var fram sameiginleg tillaga sem var svohljóðandi:

“Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að fela bæjarstjóra að vinna minnisblað varðandi framtíðarstaðsetningu húsnæðismála bæjarskrifstofa, meðal annars í tengslum við aukna húsnæðisþörf Þekkingarseturs Vestmannaeyja og leggja fyrir næsta fund bæjarstjórnar.”

Það má því nokkuð ljóst vera að finna þarf bæjarskrifstofum Vestmannaeyja nýtt húsnæði, í það minnsta ef stefnan er enn sú að sameina sviðin undir einu þaki.