Lokahóf knattspyrnudeildar ÍBV fór fram í gærkvöldi. Venju samkvæmt voru leikmenn verðlaunaðir fyrir frammistöðu sumarsins. Eyjafréttir veittu fréttabikarinn eins og hefð er fyrir og að þessu sinni voru það Ragna Sara Magnúsdóttir og Róbert Aron Eysteinsson sem urðu fyrir valinu. Hér að neðan má lesa umsögn um þetta unga og efnilega íþróttafólk. Öðrum verðlaunahöfum ásamt myndum frá hófinu verða gerð betri skil síðar.

Ragna Sara Magnúsdóttir

Ragna Sara hóf að leika knattspyrnu þegar hún var 6 ára gömul. Það þótti strax ljóst að Ragna Sara yrði mjög góður leikmaður og álíka fljótt að hún yrði mest á varnarhelmingi síns félags eins og henni kippir kyn til.

Ragna Sara hefur alltaf verið leiðtogi í sínum árgangi og oft verið fyrirliði síns liðs. Metnaður Rögnu Söru hefur alltaf verið til fyrirmyndar og hún ekki hrifin af því að tapa leikjum.

Vegna hæfileika sinna hóf Ragna Sara ung að leika uppfyrir sig sem hefur skilað henni ungri inní meistaraflokkslið ÍBV en í sumar lék Ragna Sara 12 leiki fyrir meistaraflokk og hefði leikið fleiri leiki ef landsliðsverkefni hefðu ekki verið að flækjast fyrir.

Ragna lék sinn fyrsta leik aðeins 15 ára gömul er hún kom skjálfandi á beinum inná gegn HK/Víkingi á Hásteinsvelli í september mánuði 2018.

Ári seinna er Ragna Sara var búin að festa sig í sessi í byrjunarliði meistaraflokks var hún loksins valin í landsliðshóp U-17 ára landsliðs Íslands sem lék í undankeppni EM í Hvíta Rússlandi nú á dögunum en þar kom Ragna Sara við sögu í tveimur af þremur leikjum liðsins sem tryggði sér rétt til þátttöku í milliriðlum EM 2020.

Ragna Sara hefur vakið athygli fréttamiðla landsins en hún fékk oft mjög góða dóma fyrir leik sinn fyrir ÍBV. Var meðal annars í liði umferðarinnar og fékk fjöldan allan af M-um í Mogganum.

Ragna Sara er leikmaður sem leggur sig alltaf 100% fram fyrir ÍBV, er keppnismanneskja fram í fingurgóma og skilur allt eftir á vellinum.

Róbert Aron Eysteinsson

Róbert hóf ungur að æfa knattspyrna og kom strax í ljós að þarna var mættur leikmaður með ofurkeppnisskap. Róbert sýndi strax að hann skildi leikinn betur en margur og hafði yfir afar góðri tækni að ráða.

Róbert hefur ávallt verið einn af bestu mönnunum í sínum flokkum.

Með sína eiginleika verður Róbert ekki sakaður um að yfirgefa leikvöllinn án þess að hafa gefið allt í leikinn.

Róbert er skapmikill leikmaður og sennilega sá eini sem hefur verið rekinn af velli tvo leiki í röð á N1 mótinu á Akureyri en þá var piltur aðeins 11 ára gamall.

Það er mönnum enn í fersku minni er Róbert og félagar komust í úrslitaleikinn á N1 mótinu en hann var leikinn seint að deginum sem þýddi að tæpt stæði að ná flugi heim. Ljóst var að hópurinn þyrfti að hlaupa beint út í rútu eftir leik, svo tæpt stóð flugið. Eftir hörkuleik gegn FH sem fór 1-1 tapaði ÍBV í vítaspyrnukeppni og hófst síðan kapphlaup útí rútu. Þegar leggja átti af stað kom í ljós að það vantaði einn leikmann en sá þurfti aðeins lengri tíma en aðrir til að ná sér niður. Vildi láta breyta reglum og spila framlengingu frekar en að fara beint í vító.

Þetta keppnisskap hefur fleytt Róberti Aroni langt í knattspyrnunni og ungur fór hann að fá tækifæri í meistaraflokki ÍBV.

Hann byrjaði þó á því að láta hart af sér kveða með KFS á árunum 2016-2017 og öðlaðist þá reynslu sem til þarf að koma feikisterkur inní meistaraflokkinn eins og hann gerði bæði í fyrra sem og í ár.

Róbert Aron Eysteinsson hefur í sumar sýnt miklar framfarir og komið vel inn í hlutverk sitt í ÍBV liðinu. Róbert er klókur leikmaður sem lætur til sín taka á vellinum og sýndi t.a.m. gegn Breiðabliki að reyndir menn komast ekki upp með neitt múður gegn honum.

ÍBV bindur miklar vonir við Róbert á næstu árum og er honum ætla enn stærra hlutverk en verið hefur.