Bæjarráð fundaði í hádeginu og voru náttúrugripir í Sæheimum meðal annars til umræðu.

Á fundi bæjarráðs þann 17. september sl., var framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs falið að fylgja því eftir að koma þeim safnskosti Sæheima sem ekki stendur til að sýna í nýju safni Sea Life Trust, í tímabundið húsnæði þar sem munirnir geta verið til sýnis við góðar aðstæður til varðveislu. Jafnframt að kanna hvort forstöðumaður Sagnheima geti tekið að sér ábyrgð á safnkostinum og eiga samráð við Náttúruminjasafn Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytið um þessa tilhögun.

Endurbætur fyrir eina og hálfa milljón
Kannaðir voru nokkrir valkostir í húsnæðismálum fyrir tímabundinn rekstur safnsins. Ef horft er til kostnaðar, fyrirhafnar og hversu viðkvæmur hluti safnkostsins er fyrir flutningum, er æskilegast að hafa safnið á sama stað, endurbæta aðstöðuna og opna náttúrugripasafnið að nýju. Ef áhugi og vilji er til staðar, mætti stækka safnið og nýta til þess svæðið þar sem fiskarnir voru áður staðsettir. Áætlaður kostnaður við endurbætur á aðstöðunni er um 1,5 m.kr. og ráð fyrir því gert að vetraropnunartími safnsins fylgi opnunartíma Sagnheima.

Opna tímabundið í gamla húsnæðinu
Lagt er til að opna náttúrugripasafnið að nýju í húsnæði gömlu Sæheima við Heiðarveg og reka það þar tímabundið, þar til ákvörðun um framtíðarhúsnæði Safnahússins, þ.m.t. fágætissafn og náttúrugripasafn, liggur fyrir. Gerð er tillaga um að hefja endurbætur á aðstöðunni innanhúss og ráðstafa til þess allt að 1,5 m.kr., sem rúmast innan fjárhagsáætlunar 2019. Mikilvægt er að ígrunda vel næstu skref, munirnir og safnið sjálft hefur mikið menningarlegt og tilfinningarlegt gildi. Lagt er til að opna safnið að nýju um Safnahelgina í nóvember og að hafa það opið á laugardögum í vetur.
(Samþykkt með tveimur atkvæðum E- og H- lista gegn einu atkvæði D-lista).

Takmarkað aðgengi og aukinn rekstrarkostnaður
Undirrituð telur það óskynsamlegt að varðveita munina til sýnis í núverandi húsnæði, þar sem m.a. aðgengi er verulega takmarkað en engin lyfta er í húsnæðinu. Áframhaldandi rekstur safnsins þarfnast aukins starfsmannahalds og þar með eykst rekstrarkostnaður fyrir sveitarfélagið. Fara þarf í kostnaðarsamar endurbætur á húsnæðinu og sýningarsvæðum við aðstæður sem eingöngu eru ætlaðar tímabundið. Verði þessi tímabundna ráðstöfun ákveðin dregur það einnig úr þörfinni og ákefðinni við að finna mununum varanlega varðveislu við aðstæður sem eru þeim til sóma.
(Sign. Hildur Sólveig Sigurðardóttir)

Mununum fundinn staður á öðrum söfnum bæjarins
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur til að munum í vörslu Vestmannaeyjabæjar sem ekki verður fundinn staður í gestastofu Sea Life en eru í sýningarhæfu ástandi verði komið í varanlega varðveislu á öðrum söfnum sveitarfélagsins á borð við Sagnheimum, Eldheimum eða til framtíðar á fágætissafni Vestmannaeyjabæjar í húsnæði gamla ráðhússins. Mikilvægt er að þeir verðmætu munir sem sveitarfélagið hefur tekið ábyrgð á að varðveita séu varðveittir við kjöraðstæður á sama tíma og mikilvægt er að fara með skattfé á ábyrgan hátt og að leita allra leiða til að hagræða og fara fram af skynsemi.
(Hafnað með tveimur atkvæðum H- og E-lista gegn einu atkvæði D-lista).

Kostnaður óverulegur
Tímabundin opnun Sæheima til sýninga þeirra muna sem ekki verða færðir í safn Sea Life er að mati meirihluta bæjarráðs mikilvægt skref í því að menningarleg verðmæti í eigu Vestmannaeyjabæjar fái notið sín og séu aðgengileg íbúum bæjarins og gestum sem fyrst. Nauðsynlegt er að munir séu til sýnis á meðan ákvörðun um framtíðarskipulag þessara mála er tekin.
Kostnaður sem til fellur vegna þessa rúmast innan fjárhagsáætlunar 2019 og er óverulegur miðað við þau miklu verðmæti sem hvorki eru aðgengileg né sómi sýndur eins og staðan er í dag.
(Sign. Njáll Ragnarsson, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir)