Til stóð að í Vestmannaeyjum færi fram um helgina stórt fjölliðamót í handknattleik en því hefur verið frestað um mánuð vegna veðurs. Von var á um 400 gestum til Eyja vegna mótsins. Keppendur eru fæddir árið 2006 á eldra ári í 5. flokki karla og kvenna. “Þetta er auðvitað leiðinlegt en okkur voru farnar að berast afbókanir frá liðunum. Veðurspáin fyrir morgundaginn er afleit og þessi ákvörðun er tekin í samráði við mótastjóra og mótanefnd HSÍ,” sagði Vilmar Þór Bjarnason framkvæmdarstjóri handknattleiksdeildar ÍBV. Spáð er suð-austan stormi seinnipartinn á morgun. “Þetta er ekki léttvæg ákvörðun mikill tími hefur farið í undirbúning mótsins, en við erum líka að bjóða uppá ákveðna upplifun með þessu móti og viljum að gestir okkar fari hamingjusamir heim,” sagði Vilmar að lokum.