Nokkur umfjöllun hefur verið í fjölmiðlum síðustu daga vegna meints virðingarleysis sem Isavia er sagt sýna Heimakletti í Vestmannaeyjum. Fasteignir, tæki og búnaður eru í eigu íslenska ríkisins en það er verkefni Isavia að reka flugvöll í Vestmannaeyjum og tryggja nauðsynlegu þjónustu og þar með fjárfesta í tækni og búnaði sem þarf til þess mikilvæga verkefnis. Það þarf þó að sjálfsögðu að gera þannig að fyllsta öryggis sé gætt, enda er öryggi eitt af grunngildum Isavia, og einnig þarf að gera allt þetta í góðri sátt og samvinnu við íbúa í Vestmannaeyjum.

Forsaga málsins er að í óveðri árið 2017 urðu skemmdir á ljósabúnaði fyrir hindranaljós á Heimakletti. Þennan búnað er verið að endurnýja í ár. Við kostnaðarmat á endurnýjun búnaðarins var borið saman hvort endurnýja ætti jarðstreng eða setja upp sólarselluknúna rafstöð fyrir ljósabúnað sem nauðsynlegur er á Heimakletti til að tryggja flugöryggi.

Niðurstaða verkfræðinga Isavia var að hagkvæmara væri á allan hátt og einfaldara að setja upp sólarsellu rafstöð á Heimakletti. Kostnaður við að leggja jarðstreng upp á Heimaklett var að lágmarki 15 milljónir króna auk töluverðs jarðrasks en fyrri strengur var lagður grunnt niður og án ídráttarröra á sínum tíma. Björgunarfélag Vestmannaeyja sem hefur verið að vinna þetta verkefni fyrir Isavia, lagði ríka áherslu á að Isavia yrði að sækja um öll tilskilin leyfi og annað tilheyrandi áður en nýr strengur yrði dreginn upp. Þessi leið hefði myndað mörg sár í Heimaklett og því var farið í að finna aðrar leiðir til að skemma ekki ásýnd hans. Að lokum fannst besta lausnin sem var að kaupa sólarsellu rafstöð frá Noregi en slíkar stöðvar hafa reynst vel þar í landi. Rafstöðin kom til Vestmannaeyja fyrir ári síðan og er tilbúin til flutnings á flugvellinum. Stofnkostnaður við þessa leið er einnig mun lægri eða rúmlega 4 milljónir króna.

Isavia fékk Björgunarfélagið til að grafa fyrir rafstöðinni en meðlimir töldu ómögulegt að grafa á umræddri staðsetningu sem skipulagsfulltrúi hafði lagt til. Félagið gróf á þeim stað sem þeir töldu best þjóna hagsmunum allra aðila. Vestmanneyjarbær hafnaði þeirri staðsetningu og lagði til hnit á svokölluðum B reit. Ekki er búið að grafa fyrir rafstöðinni á þeim reit.

Rafstöðin er sólarselluknúin og kallar á þjónustu í framtíðinni. Því er mikilvægt að valin sé staðsetning þar sem umgengni og þjónusta við stöðina verði örugg fyrir starfsfólk.

Næstu skref í verkefninu eru:

  • að grafa á B reit,
  • að ganga frá og loka sári sem er í jarðveginum á fyrri staðsetningu,
  • að ganga frá aflögðum rafmagnskapli þar sem hann er sjáanlegur, sem og öðru jarðraski.

Rafstöðin og ljósabúnaðurinn verða flutt á Heimaklett með aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar þegar veður og aðstæður leyfa. Vonast er til að verkinu verði lokið eins fljótt og hægt er.

Eins og nefnt hefur verið er kostnaður við lagningu jarðstrengs umtalsvert hærri en vegna uppsetningar á sólarsellu rafstöð. Þar sem Isavia þarf að gæta fyllstu hagkvæmni í sínum framkvæmdum, telur Isavia að þeim mismun sé betur varið í viðhald á flugbrautum á Vestmannaeyjaflugvelli.

Sigrún Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia